Innlent

Ekki gaman að sjá glæný för á heim­leiðinni eftir þrot­­lausa vinnu við lag­­­færingar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Unnið var í tíu tíma samfellt.
Unnið var í tíu tíma samfellt. Austurlandsdeild F4x4

Vösk sveit Austurlandsdeildar Ferðaklúbbsins 4x4 hélt á fjöll í gær til að reyna eyða ummerkjum um grófan utanvegaakstur á Kverkfjallaleið, norðan Vatnajökuls. Verkið gekk vel að sögn formanns deildarinnar, en þó var leiðangursmönnum ekki skemmt þegar ný för eftir utanvegaakstur voru sjáanleg á heimleiðinni.

Þrír ítalskir ferðamenn gengust við utanvegaakstri á Kverkfjallaleið í síðustu viku, sem reynslubolti í hálendisferðum sagði hafa valdið verstu ummerkjum sem hann hefur séð.

Á föstudaginn hófst vinna við að kanna hvernig mætti lagfæra þær skemmdir sem urðu við utanvegaaksturinn. Að sögn Jóns Garðar Helgason, sem gerði ferðina upp í pistli á Facebook í gær, var ákveðið að Austurlandsdeild F4x4, sem Jón er í forsvari fyrir, myndi senda sveit til að laga skemmdirnar sem urðu utan Vatnajökulsþjóðgarðs.

Vopnaðir nesti, hrífum og skóflum

Klukkan átta í gærmorgun lögðu því átta félagsmenn af stað frá Egilsstöðum á fjórum fjallajeppum, vopnaðir nesti, hrífum, skóflum og öðrum búnaði sem gagnast til þess vinna á ummerkjunum um utanvegaaksturinn.

Ummerkin voru á svokallaðri Kverkfjallaleið. Austurlandsdeild F4x4 var að störfum á svæðinu frá Kreppubrú og Möðrudal.Vísir

Lagt var upp með að lagfæra skemmdirnar eftir ítölsku ferðamennina. Þegar á hólminn á kominn var hins vegar svo mikið af ummerkjum eftir utanvegaakstur að Jón Garðar og félagar þurftu að velja og hafna.

„Það er erfitt að greina á milli hver á hvað. Við enduðum á að laga það sem okkur algjörlega misbauð, það sem var mjög ljótt,“ segir Jón Garðar í samtali við Vísi.

Ummerkin eru mikil og greinileg.Austurlandsdeild F4x4

Austurlandsdeildin sá um að lagfæra dýpstu förin á svæði sem nær frá Kreppubrú áleiðis að Möðrudal.

„Við löguðum þar sem hafði verið spólað í hringi og mjög langt út fyrir veg. Þetta var ekkert fullnaðarstarf. Við getum ekki klárað þetta svæði svoleiðis. En við bættum ástandið held ég,“ segir Jón Garðar.

Ýmsum verkfærum var beitt við vinnuna.Austurlandsdeild F4x4

Á meðfylgjandi myndum má sjá að förin voru á köflum ansi gróf og djúp á köflum.

„Akkúrat á þessum stað er þessi jörð bara sandur. Sandur og möl. Það verða svolítið djúp för þannig það er ekki beint erfitt að laga þetta með hrífu. Þetta er bara svo mikið, það er stóra vandamálið,“ segir Jón Garðar.

Málin rædd á milli verka.Austurlandsdeild F4x4

„Við reynum að róta ofan í það sem er djúpt og róta þannig til að það sjáist ekki línur eftir förin, þannig að þetta falli meira ofan í landslagið. Maður þarf að gera þetta þannig að þetta verði ekki áberandi,“ segir Jón Garðar um það hvernig aðferðum var beitt til að lagfæra skemmdirnar.

Ekki til að gleðja að sjá glæný för á heimleiðinni

Allt í allt tók ferðin um tíu tíma og voru meðlimir félagsins á fullu allan tímann. Síðdegis, eftir að búið var að lagfæra stóran sundurspólaðan fláka, var ákveðið að halda stað. Segir Jón Garðar að félagsmenn hafi verið nokkuð stoltir af afrakstri dagsins.

Það setti þó smá skugga á daginn að á heimleið tóku Jón Garðar og félagar eftir nýjum hring sem hafði verið spólaður utanvegar, sem var ekki til staðar þegar haldið var af stað um morguninn.

Ummerki eftir hringspól.Austurlandsdeild F4x4

„Já, það var ekki til að gleðja. Það var framar, nær Möðrudal. Við tilkynntum það til lögreglunnar en það er erfitt fyrir þá að hjóla í þetta.“

Lögreglan hafði þó hendur í hári ítölsku ferðamennina sem áttu sök á utanvegaakstrinum sem var upprunaleg ástæða þess að Ferðafélagið 4x4 fór af stað á sunnudaginn. Greinileg ummerki um utanvegaakstur reyndust á hjólbörðum bíls eins þeirra. Gengust þeir við brotum sínum. Þurfa þeir að greiða háar sektir vegna málsins.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×