Innlent

Magnea Hrönn Örvarsdóttir er látin

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Magnea Hrönn Örvarsdóttir.
Magnea Hrönn Örvarsdóttir. Ásta Kristjánsdóttir

Magnea Hrönn Örvarsdóttir, listakona og fyrrverandi blaðamaður, er látin fimmtíu ára að aldri.

Morgunblaðið greinir frá andlátinu en Magnea hefur síðustu ár beitt sér fyrir úrræðum til handa heimilislausum konum. Hún setti sinn svip á miðbæinn en áfengi og fíkniefni náðu tangarhaldi á lífi Magneu síðari ár ævi hennar. Hún var heimilislaus síðustu sex árin.

Magnea starfaði sem blaðamaður í nokkur ár. Hún stundaði nám við Mennta­skól­ann í Reykja­vík og síðan Háskóla Íslands þar sem hún nam heimspeki.

Fjallað var um Magneu Hrönn í þættinum Paradísarheimt á RÚV. Þar segir meðal annars að Magnea hafi verið framúrskarandi námsmaður í menntaskóla. Magnea hafi búið lengi í Englandi,  unnið við blaðamennsku, eins og áður sagði, og þýðingar. Þá hafi hún einnig skrifað greinar í Kvennablaðið um veru sína í fangelsi.

Egill Helgason minnist Magneu á samfélagsmiðlum:

„Magnea Hrönn Örvarsdóttir varð fórnarlamb óstjórnlegrar fíknar sem nú hefur dregið hana til dauða fyrir aldur fram. Fyrir okkur vini hennar var líf hennar í seinni tíð óskiljanlegur harmleikur, hvað var það sem gekk á alla þessa daga og allar þessar nætur? Og símtölin sem eftir á að hyggja voru kannski frekar ákall um einhvers konar viðurkenningu en hjálp. En ég ætla að muna fallegu, gáfuðu og skemmtilegu stelpuna sem ég kynntist fyrir 30 árum og ég gat ekki annað en hrifist af. Ég sakna hennar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×