Innlent

Ríf­­lega átta þúsund hlaupa í Reykja­víkur­mara­þoni

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
SIlja Úlfarsdóttir er upplýsingafulltrúi Íþróttabandalags Reykjavíkur, sem heldur Reykjavíkurmaraþonið.
SIlja Úlfarsdóttir er upplýsingafulltrúi Íþróttabandalags Reykjavíkur, sem heldur Reykjavíkurmaraþonið. Stöð 2

Að minnsta kosti 8.200 munu hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka sem fram fer á Menningarnótt á morgun. 88 milljónir hafa safnast í formi áheita og munu renna til hinna ýmsu góðgerðarfélaga.

Menningarnótt Reykjavíkurborgar fer fram á morgun með tilheyrandi hátíðardagskrá. Matarvagnar verða staðsettir víða um miðbæinn, list verður nánast á hverju horni, tónleikar, dans, blöðrudýr, ís fyrir börnin og svo lengi mætti telja, en upplýsingar um helstu viðburði má finna í fréttinni hér að neðan.

Frítt verður í Strætó og boðið upp á skutlþjónustu á milli Laugardals og Hallgrímskirkju.

Skráning enn í gangi

Dagskrá Menningarnætur hefst að venju með Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka en 8.200 hlauparar eru skráðir í hlaupið í dag.

„Við vitum að það á eftir að bætast eitthvað við en skráningarhátíðin sem er í Laugardalshöll er opin í dag á milli 14:00 og 19:00 og það er hægt að skrá á staðnum þar,“ sagði Silja Úlfarsdóttir, upplýsingafulltrúi Íþróttabandalags Reykjavíkur.

Hún segir að erlendir hlauparar skili sér vel en í ár koma tvö þúsund til landsins til að spretta úr spori.

„Annars eru þetta flest allt íslenskir hlauparar, en við söknum þess þó aðeins að í tíu kílómetrunum þá vantar aðeins hlauparana sem hafa verið að hlaupa síðustu ár.“

88 milljónir í hús

Tíu kílómetrarnir eru vinsælasta hlaupaleiðin en hálft maraþon kemur þar fast á eftir. Líkt og þekkt er safna hlauparar áheitum.

„Söfnunin gengur mjög vel. Við erum núna komin hátt í 88 milljónir en á sama tíma árið 2019 sem var metárið okkar þá vorum við komin nokkuð vel fram úr því. Við erum bjartsýn og vitum að síðustu dagarnir skila mestu þannig við hvetjum fólk sem ætlar ekki að hlaupa til að styrkja öll þessi góðu góðgerðarfélög.“

Hlaupið verður frá Sóleyjargötu í fyrramálið. Maraþon og hálfmaraþon hefst klukkan 8:40, tíu kílómetrarnir byrja 9:40 og skemmtiskokkið hefst klukkan 12:00.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×