Innlent

Ingvar Gísla­son er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Ingvar Gíslason sat á þingi frá 1961 til 1987 og gegndi embætti menntamálaráðherra á árunum 1980 til 1983.
Ingvar Gíslason sat á þingi frá 1961 til 1987 og gegndi embætti menntamálaráðherra á árunum 1980 til 1983. Alþingi

Ingvar Gíslason, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og ráðherra, er látinn, 96 ára að aldri.

Greint er frá andláti Ingvars í Morgunblaðinu í morgun. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Seltjörn á Seltjarnarnesinu á miðvikudaginn.

Ingvar var kjörinn á þing fyrir Framsóknarflokkinn árið 1961. Hann var þingmaður Norðurlands eystra og sat á þingi allt til ársins 1987. Hann gegndi embætti formanns þingflokks Framsóknarflokksins á árunum 1979 til 1980 en þá tók hann við embætti menntamálaráðherra í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen. Ingvar lét svo af embætti menntamálaráðherra árið 1983.

Ingvar gegndi í tvígang embætti forseta neðri deildar Alþingis – fyrst frá 1978 til 1979 og svo aftur frá 1983 til 1987. Eftir að þingferlinum lauk varð hann ritstjóri Tímans, frá 1987 til 1991.

Á vef Alþingis kemur fram að Ingvar hafi fæðst í Nesi í Norðfirði 28. mars 1926 – sonur hjónanna Gísla Hjálmarssonar Kristjánssonar útgerðarmanns og Fannýjar Kristínar Ingvarsdóttur húsmóður.

Ingvar útskrifaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1947 og stundaði svo nám í íslenskum fræðum í Háskóla Íslands og svo sagnfræði við Háskólann í Leeds áður en hann tók lögfræðipróf frá Háskóla Íslands 1956. Áður en hann tók sæti á þingi starfaði hann meðal annars sem blaðamaður, í fjármálaráðuneytinu, kennari, og dómarafulltúi.

Kona Ingvars var Ólöf Auður Erlingsdóttir sem lést árið 2005. Þau eignuðust fimm börn, þau Fannýju, Erling Pál, Gísla, Sigríði og Auði Ingu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×