Fótbolti

Íslendingaliðin nálgast Meistaradeildina

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alfons Sampsted og félagar hans í Bodö/Glimt unnu nauman sigur í kvöld.
Alfons Sampsted og félagar hans í Bodö/Glimt unnu nauman sigur í kvöld. Stanislav Vedmid/DeFodi Images via Getty Images

Íslendingaliðin Bodö/Glimt frá Noregi og FCK frá Danmörku unnu bæði sigra í fyrri leikjum liðanna í umspili um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Alfons Sampsted og félagar hans í norska meistaraliðinu Bodö/Glimt unnu 1-0 sigur er liðið tók á móti króatíska liðinu Dinamo Zagreb.

Alfons var á sínum stað í byrjunarliðinu og lék allan leikinn í hægri bakverði, en það var Amahl Pellegrino sem skoraði eina mark leiksins á 39. mínútu eftir stoðsendingu frá Joel Mvuka Mugisha.

Þá unnu Hákon Arnar Haraldsson, Ísak Bergmann Jóhannesson og félagar þeirra í FCK góðan 2-1 sigur gegn tyrknesku meisturunum í Trabzonspor.

Hákon var í byrjunarliði FCK og lék fyrstu 70 mínútur leiksins, en Ísak Bergmann kom inn af varamannabekknum þegar um tíu mínútur voru til leiksloka.

Viktor Claesson skoraði fyrra mark heimamanna í FCK eftir tæplega tíu mínútna leik áður en Lukas Lerager tvöfaldaði forystu liðsins snemma í síðari hálfleik.

Anastasios Bakasetas minnkaði hins vegar muninn fyrir gestina á 79. mínútu og niðurstaðan því 2-1 sigur FCK.

Íslendingaliðin fara því bæði með eins marks forystu í síðari viðureignir liðanna um laus sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Báðir leikirnir fara fram á miðvikudaginn eftir rúma viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×