Innlent

Geti kallað á að­komu lög­reglu að fara með börn að gosinu

Árni Sæberg skrifar
Þessi börn komust án vandræða að eldgosinu í Meradölum. Litlu yngri börn mega ekki ganga þangað sem stendur.
Þessi börn komust án vandræða að eldgosinu í Meradölum. Litlu yngri börn mega ekki ganga þangað sem stendur. Vísir/Vilhelm

Umboðsmaður barna ítrekar að foreldrar eigi að gæta velferðar og öryggis barna sinna í tilefni barnabanns Lögreglustjórans á Suðurnesjum. Börn yngri en tólf ára gömul mega ekki ganga að gosstöðvunum í Meradölum.

„Við alla útivist er mikilvægt að foreldrar sjái til þess að börn séu vel útbúin, bæði hvað varðar fatnað og annan nauðsynlegan búnað. Þá þurfa foreldrar að leggja mat á það hvort barnið sé í stakk búið til þess að takast á við aðstæður hverju sinni,“ segir í tilkynningu á vef Umboðsmanns barna. 

Sú tilkynning er gefin út í tilefni af því að Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur tekið ákvörðun um að takmarka, að svo stöddu, aðgengi barna yngri en tólf ára að gosstöðvunum í Meradölum.

Umboðsmaður, Salvör Nordal, segir einnig mikilvægt að foreldrar leggi mat á hvort börn séu í stakk búin til þess að takast á við aðstæður við gosstöðvarnar hverju sinni og hugi að loftgæðum og veðráttu.

Salvör Nordal er Umboðsmaður barna.Vísir

„Ef foreldrar eða forsjáraðilar bregðast skyldum sínum og koma börnum í aðstæður þar sem þeim er hætta búin þarf að bregðast við því og í ákveðnum tilfellum getur slíkt athæfi kallað á aðkomu lögreglu og barnaverndaryfirvalda,“ segir í tilkynningu.

Mikilvægt að mismuna ekki börnum við töku ákvarðana

Umboðsmaður barna leggur einnig áherslu á að ávallt þurfi að tryggja að réttindi barna séu vernduð og virt við töku ákvarðana og innleiðingu aðgerða sem takmarka réttindi þeirra.

Takmarkanir verði aðeins settar á grundvelli laga og brýnnar nauðsynjar og mikilvægt sé að gæta meðalhófs og jafnræðis þegar ákvaðarðanir eru teknar.

„Ákvörðun sem felur í sér takmarkanir á aðgengi barna að náttúrufyrirbærum sem öllum öðrum er heimilt að heimsækja, verða að byggja á skýrri lagaheimild, en slíkar ákvarðanir þarf jafnframt að kynna opinberlega og þá sérstaklega fyrir börnum og foreldrum þeirra,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að Umboðsmaður hafi á undanförnum árum lagt áherslu á að innleitt verði mat á áhrifum á börn innan stjórnkerfisins. Það sé liður í því að kanna hvort ákvarðanir samræmist barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×