Innlent

Nokkrum fjölskyldum vísað frá í gær

Samúel Karl Ólason skrifar
Rúmlega fimm þúsund manns virtu eldgosið fyrir sér í gær.
Rúmlega fimm þúsund manns virtu eldgosið fyrir sér í gær. Vísir/Vilhelm

Nokkrum erlendum fjölskyldum var vísað frá gönguleiðinni að eldgosasvæðinu í Meradölum í gær. Var það gert vegna ungs aldurs barna. Eftirlit er sagt hafa gengið vel en gangan mun hafa reynst mörgum erfið í nótt og þurftu margir aðstoð við að komast niður af fjallinu.

Samkvæmt talningu Ferðamálastofu fóru 5.064 um gossvæðið í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum.

Lögreglustjórinn segir mögulegt að gasmengun gæti safnast nærri gossvæðinu í dag. Veðurspár geri ráð fyrir suðlægri átt 3-8 m/s í dag og að gasmengunin far til norðausturs. Í hægviðri geti gasið safnast í lægðum og geti verið langt yfir hættumörkum upp í hlíðar allan hringinn í kringum gosstöðvarnar.

Eldgosasvæðið er opið í dag. Eins og áður hefur komið fram verður foreldrum með börn yngri en tólf ára vísað frá en gert ljóst að þau geti farið í Nátthaga og skoðað hraunið sem rann í gosinu í fyrra.

„Börn hafa minna þol gagnvart loftmengun og eru skilgreind sem viðkvæmur hópur. Þá er ekki ráðlegt að börn dvelji lengur en 15 mínútur á stað þar sem loftmengun er yfir heilsuverndarmörkum, sjá upplýsingar á heimasíðu embættis landlæknis,“ segir í tilkynningu lögreglustjórans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×