Innlent

Sölvi Tryggvason snýr aftur með fjóra þætti

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sölvi Tryggvason hefur birt fjóra nýja þætti á hlaðvarpssíðu sína. 
Sölvi Tryggvason hefur birt fjóra nýja þætti á hlaðvarpssíðu sína.  Stöð 2

Fjórir nýir þættir af hlaðvarpinu Podcast með Sölva Tryggva eru komnir á áskriftarsíðu Sölva sem sett var í loftið nýlega. Sölvi hefur ekki birt nýjan þátt síðan tvær konur sökuðu hann um ofbeldi í maí á síðasta ári.

Í kjölfar ásakananna var öllum þáttum hlaðvarpsins eytt af helstu hlaðvarpsveitum. Í desember á síðasta ári bárust síðan fregnir af því að Sölvi ætlaði að snúa aftur og væri búinn að taka upp nokkra þætti.

greinir Fréttablaðið frá því að fjórir nýir þættir séu komnir inn á sérstaka áskriftarsíðu Sölva sem sett var á laggirnar nýlega.

Gestirnir fjórir sem Sölvi ræddi við í nýju þáttunum eru Ellý Ármannsdóttir, myndlistakona, Haraldur Erlendsson, lögfræðingur, Sara Oddsdóttir, markþjálfi og Númi Katrínarson, eigandi líkamsræktarstöðvarinnar Grandi 101.

Samkvæmt Fréttablaðinu hefur Sölvi fengið fjölda fólks til sín í viðtöl sem munu birtast á næstu mánuðum, til dæmis fyrirsætuna Ásdísi Rán, Nökkva Fjalar, stofnanda Swipe Media, Evu Hauksdóttur, lögfræðing, og Ögmund Jónasson, fyrrverandi ráðherra.

Áskrift að hlaðvarpi Sölva kostar 990 krónur á mánuði en með áskriftinni fær fólk aðgang að öllum gömlu þáttum Sölva, sem og að þremur til fjórum nýjum þáttum í hverjum mánuði.

Á vefsíðu Sölva er ekki einungis hægt að kaupa áskrift að hlaðvarpinu heldur býður hann einnig upp á mánaðarnámskeið í almennri heilsuráðgjöf. Námskeiðið kostar fjörutíu þúsund krónur en á síðunni er einnig hægt að bóka fyrirlestur frá Sölva og fá fjölmiðlaráðgjöf.


Tengdar fréttir

Bað um að við­tal Sölva við sig yrði ekki birt

Bogi Ágústsson, fréttamaður á Ríkisútvarpinu, hefur óskað eftir því að viðtal sem Sölvi Tryggvason tók við hann fyrr á árinu verði ekki birt. Sölvi hyggst fara með hlaðvarp sitt af stað að nýju innan skamms, en hann dró sig úr sviðsljósinu fyrr á þessu ári þegar fram komu ásakanir á hendur Sölva um að hafa framið kynferðisbrot gegn tveimur konum.

Öll viðtöl Sölva Tryggvasonar fjarlægð

Öll viðtöl Sölva Tryggvasonar hafa verið fjarlægð af hlaðvarpsveitum og YouTube-rás hlaðvarpsstjórnandans, eftir að beiðni þess efnis barst stafrænu auglýsingastofunni KIWI.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×