Innlent

Kænugarður vígður við rússneska sendiráðið

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Listafólkið og hjónin Óskar Hallgrímsson og hin úkraínska Mariika Lobyntseva voru fengin til að hanna skiltið.
Listafólkið og hjónin Óskar Hallgrímsson og hin úkraínska Mariika Lobyntseva voru fengin til að hanna skiltið. vísir/Sigurjón

Torgið Kænugarður á horni Garðastrætis og Túngötu var formlega vígt við fjölmenna athöfn í morgun. Torgið nærri rússneska sendiráðinu.

Sett var upp skilti sem listafólkið og hjónin Óskar Hallgrímsson og hin úkraínska Mariika Lobynsteva hönnuðu. Nafngiftin var samþykkt einróma í skipulags- og samgönguráði borgarinnar í vor og sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri við vígsluna í morgun hana undirstrika stuðning borgarinnar.

Torgið er nærri rússneska sendiráðinu.vísir/Sigurjón

„Þetta hefur fyrst og fremst táknræna þýðingu. Þetta stöðvar ekki stríð og linar ekki þjáningar en undirstrikar stuðning Reykjavíkur við Kænugarð og stuðning Íslendinga við Úkraínu. Og kannski undirstrikar líka að við þurfum að vera tilbúin til þess að standa með Úkraínu og taka Úkraínufólki opnum örmum eins lengi og stríðið stendur,“ sagði Dagur á nýju Kænugarðstorgi í morgun.

Skiltið var sett upp í morgun.Vísir/Sigurjón

Kristófer Gajavsky, sem hefur aðstoðað úkraínskt flóttafólk á Íslandi og skipulagt ýmsa viðburði, segir staðsetninguna við rússneska sendiráðið mikilvæga. „Það má alveg segja að þetta sé þyrnir í augum þeirra, að við séum hér að standa saman á móti stríði,“ segir Kristófer og bætir við að torgið geti veitt fólki von. „Fyrir okkur er þetta risa stór hátíð í dag.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×