Innlent

Mikil­vægt að undir­búa sig undir að gosið standi yfir í langan tíma

Bjarki Sigurðsson skrifar
Gosvirknin hefur haldist stöðug síðustu daga.
Gosvirknin hefur haldist stöðug síðustu daga. Vísir/Vilhelm

Á fundi Vísindaráðs almannavarna í morgun var farið yfir nýjustu gögn og mælingar um eldgosið í Meradölum. Gosvirknin hefur haldist nokkuð stöðug síðustu daga og er það mikilvægt að undirbúa sig undir að gosið gæti staðið yfir í nokkuð langan tíma.

Í tilkynningu á vef Veðurstofunnar segir að framgangur gossins síðustu daga hafi verið eins og við mátti búast.

„Á gervihnattamyndum sem sýna landbreytingar á Reykjanesskaga frá lok júlí má sjá merki um aflögun skammt norðaustur af Grindavík. Aflögunin sem sést á gervihnattamyndunum er við upptök skjálftans sem varð 31. júlí og mældist M5.5,“ segir í tilkynningunni.

Aflögunin er hér afmörkuð með svörtum kassa.Veðurstofa Íslands

Á fundi Vísindaráðs var farið yfir fleiri gögn frá svæðinu, til dæmis GPS-mælingar og skjálftagögn. Gögnin sýndu engar vísbendingar um að kvika væri þarna á ferðinni og samkvæmt ráðinu er líklegasta skýringin á aflöguninni breytingar á yfirborði sem urðu fyrir um tíu dögum síðan.

„Engu að síður munu vísindamenn safna frekari gögnum til að staðfesta enn frekar að svo sé. Rætt var að mikilvægt væri að auka vöktun enn frekar á þeim umbrotasvæðum sem geta haft áhrif nærri byggð með því að setja upp fleiri mælitæki til rauntímavöktunar,“ segir í tilkynningunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.