Innlent

Reyndi að bjarga strönduðum dróna með dróna í Stuð­la­gili

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Björgunaraðgerðirnar í fullum gangi.
Björgunaraðgerðirnar í fullum gangi. Skjáskot

Hún heppnaðist ekki, björgunaraðgerð drónaflugmanns sem kom auga á strandaðan dróna á syllu í Stuðlagili í sumar.

Drónaflugmaður sem gengur undir notendanafninu Man from Earth á YouTube birti um helgina myndband frá Íslandsferð hans, sem farin var í sumar.

Notandinn sérhæfir sig í drónamyndböndum. Var hann við tökur á einu slíku í Stuðlagili þegar hann kom auga á dróna sem fastur var á syllu í gilinu.

„Ég ákvað að bjarga þessum dróna,“ heyrist hann segja í myndbandinu. Þar má einnig sjá undirbúning hans fyrir björgunaraðgerðunum.

Fólust þær í að taka skóreimar og herðatré til að útbúa eins krók sem hægt var að festa við dróna.

Ætlunin var að nota þennan veiðibúnað, festa hann við annan dróna og freista þess að krækja í drónann sem var fastur.

Í myndbandinu má sjá að að hinum svokallaða Man from Earth tókst að krækja í drónann sem var fastur. Svo virðist hins vegar vera að dróninn sem hann notaði við veiðina hafi ekki verið nógu öflugur til að hífa hinn drónann upp.

Ekki vildi svo betur til en að í lokatilraun við að bjarga strandaða drónanum rakst krækjan í drónann, með þeim afleiðingum að hann flaug út í Jökulsá Dal.

„Ralph, ef þú ert að horfa á þetta. Mér þykir þetta leitt“

Í myndbandinu má jafn framt sjá að sá sem tók það upp tók eftir því að merkimiði með nafninu Ralph var límdur aftan á drónann.

„Ralph, ef þú ert að horfa á þetta. Mér þykir þetta leitt. Ég reyndi að hjálpa.“

Svo virðist sem að nokkuð algengt sé að drónar glatist við Stuðlagil. Lausleg leit að auglýsingum um týndan dróna í Stuðlagili skilaði þessum þræði á Reddit, þar sem gestir gilsins eru beðnir um að svipast um eftir dróna sem þar týndist í sumar. Í umræðunum við þráðinn má lesa að nokkrir kannist við að týnt dróna á svæðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×