Lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákvað að gosstöðvarnar verði lokaðar klukkan fimm í nótt og verður staðan endurmetin seinna um daginn. Gular viðvaranir taka gildi á Suðurlandi og í Faxaflóa klukkan níu í fyrramálið. Gert er ráð fyrir mikilli rigningu og hvassviðri og ekkert ferðaveður.
Nokkuð magn af gasi frá eldgosinu mun leggjast yfir byggð á suðvesturhorninu og á Suðurlandi á morgun samkvæmt spálíkani Veðurstofunnar. Veðurfræðingur segir þó að líkanið eigi það til að ofmeta magn gass sem kemst niður á yfirborð. Því sé engin ástæða til að örvænta en fólk beðið um að fylgjast með gasspám á vef Veðurstofunnar.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar segir að gríðarlegur kostnaður fylgi gosinu sem falli að miklu leyti á bæinn.
„Ég held að bærinn hafi verið með fimmtíu til sextíu milljónir í nettókostnað í fyrra. Ætli það verði ekki eitthvað svipað núna þannig það tínist fljótt til.“
Fannar segir að kostnaður sem lendir á Grindarvíkurbæ vegna gossins verði gerður upp síðar.
„Auðvitað er heilmikill kostnaður sem ríkisvaldið hefur af þessu líka og björgunarsveitir og aðrir slíkir sem eru bakkaðir upp af ydirvöldum. Einhver nettókostnaður verður eftir hjá okkur og við auðvitað leitum stuðnings þangað sem hann er að finna en skiljumst ekki við að ganga í verkið og vinna það sem þarf núna. Svo verður að sjá til með uppgjör þegar þar að kemur.“