Innlent

„Í dag er stóri dagurinn“

Bjarki Sigurðsson skrifar
Gunnlaugur Bragi Björnsson var kjörinn formaður Hinsegin daga í Reykjavík í fyrra.
Gunnlaugur Bragi Björnsson var kjörinn formaður Hinsegin daga í Reykjavík í fyrra. Hinsegin dagar

Hin sívinsæla Gleðiganga fer fram í dag á lokadegi Hinsegin daga. Fjölbreytt dagskrá hefur verið víðsvegar um borgina alla vikuna en hátíðinni lýkur í kvöld með tónleikum á Bryggjunni steikhús þar sem stjórnin mun troða upp.

Hinsegin dagar hafa verið haldnir hátíðlegir alla vikuna en stærsti viðburður vikunnar fer fram í dag, Gleðigangan eina sanna. Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga, er afar spenntur fyrir göngunni.

„Í dag er stóri dagurinn, það fer að líða undir lok á dagskrá Hinsegin daga og komið að Gleðigöngunni, svo verður útihátíð í Hljómskálagarðinum í kjölfarið. Lokaballið er svo í kvöld með Stjórninni,“ segir Gunnlaugur í samtali við fréttastofu.

Gangan hefst klukkan tvö í dag en veðurspáin er með besta móti þrátt fyrir að það líti út fyrir að skýin ætli ekki að forða sér í dag. En hvert er gengið?

„Gangan leggur stundvíslega af stað frá Hallgrímskirkju klukkan tvö og mun liðast niður Skólavörðustiginn, Bankastræti, Lækjargötu og enda við Hljómskálagarðinn,“ segir Gunnlaugur og hvetur alla til að koma sér fyrir á gönguleiðinni til að fylgjast með.

Hann segir fólk mega búast við ýmsu, þó fyrst og fremst gleði.

„Það verður litadýrð, það verða læti, það verður gleði, það verður barátta. Mér finnst ekki ólíklegt að það verði pólitísk skilaboð að einhverju leiti, við erum að sjá bakslag hér heima og víða erlendis. Það kæmi mér ekki á óvart þótt það væru nokkur skýr skilaboð í göngunni í dag. Svo auðvitað bara góð skemmtun á sviðinu í Hljómskálagarðinum í kjölfarið,“ segir Gunnlaugur.

Í kvöld fer síðan fram lokaball Hinsegin daga á Bryggjunni steikhús. Stjórnin treður þar upp áður en DJ Margrét Maack tekur við og spilar fram á nótt. Hægt er að nálgast miða á vefsíðu Hinsegin daga.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.