Fótbolti

Viðar Örn sagður á leið til Grikklands

Valur Páll Eiríksson skrifar
Viðar Örn yfirgaf Vålerenga snemma í júlí.
Viðar Örn yfirgaf Vålerenga snemma í júlí. nettavisen

Landsliðsframherjinn Viðar Örn Kjartansson er sagður á leið til Atromitos í grísku úrvalsdeildinni. Hann hefur verið án félags í tæpan mánuð frá því að hann yfirgaf Vålerenga í Noregi.

Viðar Örn samdi við Vålerenga árið 2020 en var þá að ganga til liðs við félagið í annað skipti á ferlinum. Samningur hans var fram á næsta ár en komist var að samkomulagi um slit þess samnings þann 8. júlí síðastliðinn.

Viðar Örn hefur leitað að nýju félagi síðan en greint er frá því á Twitter-síðu hlaðvarpsins Dr. Football, sem er í umsjón Hjörvars Hafliðasonar, að sú leit sé nú á enda. Hann sé á leið til Atromitos í Grikklandi.

Þjálfari Atromitos er Walesverjinn Chris Coleman sem tók við liðinu í sumar. Hann stýrði meðal annars Fulham í ensku úrvalsdeildinni frá 2003 til 2007 og Wales í undanúrslit á EM 2016.

Viðar Örn verður þá annar Íslendingurinn til að leita til Grikklands í sumar en Hörður Björgvin Magnússon gekk í raðir Panathinaikos eftir að hann fékk samningi sínum við CSKA Moskvu rift vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Gangi skipti Viðars Arnar eftir verður Grikkland sjöunda erlenda landið sem hann spilar í. Hann hefur leikið fyrir Vålerenga í Noregi, Jiangsu Sainty í Kína, Malmö og Hammarby í Svíþjóð, Maccabi Tel Aviv í Ísrael, Rostov og Rubin Kazan í Rússlandi og Yeni Malatyaspor í Tyrklandi.

Viðar Örn skoraði 14 mörk í 33 deildarleikjum á seinni tíma sínum með Vålerenga en hann er 32 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×