Innlent

Skjálfti að stærð 4,4 reið yfir við Fagra­dals­fjall rétt fyrir fimm

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Jarðskjálftahrinan við Fagradalsfjall hefur staðið yfir frá hádegi og nú rétt fyrir klukkan fimm mældist stærsti skjálftinn til þessa.
Jarðskjálftahrinan við Fagradalsfjall hefur staðið yfir frá hádegi og nú rétt fyrir klukkan fimm mældist stærsti skjálftinn til þessa. Vísir/Egill

Jarðskjálftahrina stendur nú yfir við Fagradalsfjall. Hún hófst um hádegisbil en stærsti skjálftinn í hrinunni var 4,4 að stærð og mældist rétt fyrir klukkan fimm. Flugveðurkóði hefur verið settur á gult og Almannavarnir fylgjast með stöðunni. Náttúruvársérfræðingur telur að atburðurinn muni vara í nokkra daga.

„Það er mjög mikil skjálftavirkni frá því að það hófst skjálftahrina þarna rétt norðaustan við Fagradalsfjall í hádeginu, milli klukkan tólf og eitt. Síðan þá hafa mælst ótal skjálftar á svæðinu, það er frekar mikil virkni,“ segir Einar Hjörleifsson náttúruvársérfræðingur: „Við reynum að fylgjast með hvað gerist, bæði í hrinunni og með tilliti til þess hvort það gæti verið að hefjast þarna eldgos aftur á svæðinu.“

Flugveðurkóði hefur verið settur á gult viðbúnaðarstig en það hefur ekki verið gert síðan eldgosinu í Fagradalsfjalli lauk og talið var öruggt að færa kóðann upp á grænt stig að nýju. Einar varar fólk á Reykjanesi við því að aukin skriðuhætta sé á svæðinu.

Fjölmargir skjálftar hafa mælst á svæðinu eins og sjá má á myndinni.Veðurstofan

„Það er mikill kraftur, mjög margir litlir skjálftar koma með mjög skömmu millibili núna þannig að það er svolítill kraftur í þessari hrinu. Það hafa komið stærri skjálftar inn á milli, stærsti skjálftinn kom núna klukkan 14.02, 4,0 að stærð – hann var kröftugasti skjálfti sem hefur komið í hrinunni hingað til. Þetta er enn á 5-7 kílómetra dýpi og við erum svona að fylgjast dýpinu um leið og ný gögn berast.“

Hann segir að gert sé ráð fyrir því að kvika geti verið á þessu 5-7 kílómetra dýpi sem skjálftarnir eru að mælast á og bætir við að jarðskjálftahrinan sé ívið kröftugari en hrinan sem var um áramótin. 

„Þegar það byrjaði að gjósa síðast þá datt skjálftavirknin allt í einu niður og síðan hófst gos þannig að við verðum svolítið að fylgjast með. Almannavarnir eru meðvitaðar um stöðuna, við vorum að funda með þeim núna klukkan tvö.“

Hann segir ómögulegt að segja til um það á þessum tímapunkti hver næstu skref verði.

„Við verðum bara að fylgjast með þessu næsta sólarhringinn og hvort við færum okkur upp á annað viðbúnaðarstig eftir það.“

Fréttin hefur verið uppfærð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.