Erlent

Telur sig hafa borið kennsl á So­mer­ton-manninn

Bjarki Sigurðsson skrifar
Somerton-maðurinn fannst látinn fyrir rúmum sjötíu árum síðan.
Somerton-maðurinn fannst látinn fyrir rúmum sjötíu árum síðan.

Prófessor við Háskólann í Adelaide telur sig hafa borið kennsl á mann sem hingað til hefur alltaf verið kallaður Somerton-maðurinn. Í rúm sjötíu ár hefur engum tekist að komast að því hver maðurinn er en málið er eitt það dularfyllsta í sögu Ástralíu.

Lík Somerton-mannsins fannst á strönd í borginni Adelaide árið 1948 og vildi enginn kannast við manninn. Nafni hans var leitað um allan heim en lögreglan gat aldrei staðfest hver hann væri.

Derek Abbot, prófessor við Háskólann í Adelaide, vill þó meina að maðurinn hafi heitið Carl Webb og hafi verið rafmagnsverkfræðingur frá borginni Melbourne.

Lögreglan hefur ekki viljað staðfesta þessa ályktun Abbot en hann heldur því fram að hann hafi hár úr manninum sem hafði fests í afsteypu sem gerð var af andliti Somerton-mannsins áður en hann var grafinn. Með DNA-rannsóknum á hárinu hafi hann getað borið kennsl á manninn.

„Mér leið eins og ég væri að klífa Mount Everest og nú væri ég kominn á toppinn,“ sagði Abbott í samtali við CNN um augnablikið sem hann náði að komast að því hver Somerton-maðurinn væri.

Líkamsleifar Somerton-mannsins voru grafnar upp í maí á síðasta ári svo lögreglan gæti borið kennsl á hann. Svo virðist sem Abbott hafi náð að vera á undan þeim.

Við rannsókn málsins á sínum tíma fékk lögreglan fullt af vísbendingum um afdrif mannsins en aldrei var hægt að bera kennsl á hann. Meðal þess sem fannst var fatnaður þar sem allir merkimiðar höfðu verið fjarlægðir, blaðsíðu úr ljóðabók frá 12. öld sem stóð á „Tamad Shud“ eða „búinn“, símanúmer hjúkrunarfræðings sem talinn var vera njósnari og margt fleira. 

Vera Illugadóttir fjallaði ítarlega um dularfullt mál Somerton-mannsins í þætti sínum Leðurblakan á Rás 1. Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×