Innlent

Horn­firðingar una ekki úr­skurði inn­viða­ráðu­neytisins

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sveitarfélagið Hornafjörður ætlar ekki að fara eftir úrskurði innviðaráðuneytisins.
Sveitarfélagið Hornafjörður ætlar ekki að fara eftir úrskurði innviðaráðuneytisins. Vísir/Vilhelm

Hornfirðingar ætla ekki að una úrskurði innviðaráðuneytisins sem segir að sveitarfélagið hafi brotið lög þegar lóðarhöfum einum við Hagaleiru var synjað um að fá gatnagerðargjöld felld niður.

Fréttablaðið greinir frá en þar segir að sveitarfélagið hafi ekki fengið upplýsingar um að kæran væri til umfjöllunar í ráðuneytinu. Þá hafi þeir ekki fengið að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

„Engar skýringar eða leiðir eru til að rekja það að kæra lá fyrir í ráðuneytinu þar sem of langur tími var liðinn til að rekja tölvupósta,“ segir í fundargerð bæjarráðs Hornafjarðar.

Lóðarhöfum verður því synjað um endurgreiðslu gatnagerðargjalda líkt og hafði verið ákveðið. Endurgreiðslan sem er synjað nemur tæpum þremur milljónum króna.

Sveitarfélagið telur framkvæmdirnar ekki hafa verið í trássi við jafnræðisreglu. Þá sé ekki um mismunun að ræða þar sem þeir sem fengu frest á framkvæmdum hafi ekki verið að sækja um lóð eftir að reglur um afslátt af gagnagerðargjöldum runnu út.

Í fundargerðinni segir að úrskurður innviðaráðuneytisins sé ekki bindandi fyrir sveitarfélagið en bæjarráð telur að málsmeðferðin hafi verið gölluð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.