Innlent

Á brattann að sækja en Hjarta­garðurinn sé ekki mis­heppnaður

Vésteinn Örn Pétursson skrifar

Rekstraraðilar í Hjartagarðinum eru ósammála borgarfulltrúa um að torgið sé misheppnað, eftir þær breytingar sem þar hafa orðið á undanförnum árum. Svæðið sé ekki jafn laust við mannlíf og fólk tali oft um.

Hjartagarðurinn liggur á milli Hverfisgötu og Laugavegs annars vegar, og Klapparstígs og Smiðjustígs hins vegar. Fyrir tæpum áratug var tekin ákvörðun um að breyta garðinum, en þar hafði öflugt grasrótarstarf lista og menningar blómstrað, svo gott sem sjálfsprottið.

Í samtali við Vísi sagði Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi að Hjartagarðurinn væri misheppnaður að því leyti að ekki hefði tekist að kveikja mikið líf á svæðinu.

Hjálmar nefnir sérstaklega að Óðinstorg og Káratorg hafi heppnast betur en Hjartagarðurinn, eða Hjartatorg eins og það er einnig kallað, með tilliti til aðsóknar borgarbúa, gesta og gangandi.

Rekstraraðilar í Hjartagarðinum eru ekki endilega sammála því að torgið sé misheppnað. Ásdís Þula Þorláksdóttir, sem rekur listgallerí við torgið, segir til að mynda að fjöldi fólks sæki torgið þegar veður er gott, líkt og með önnur torg borgarinnar. 

Eigandi verslunar við torgið tekur í sama streng.

„Ég er ekki sammála því að torgið hafi misheppnast en vissulega hefur verið á brattann að sækja að efla mannlífið hérna inni á torginu,“ segir Ásmundur Jónsson, einn eigenda plötuverslunarinnar Smekkleysu, sem er til húsa í Hjartagarðinum.

Ásmundur nefnir að þegar blásið hafi verið til skipulagðra viðburða á torginu hafi það gengið vel.

Ásmundur Jónsson er einn eigenda Smekkleysu.

„Þetta er bara spurningin um að kveikja þetta líf, að fólk fari að setja það inn á radarinn að þetta sé áhugaverður staður að dvelja á.“

Búast megi við miklu lífi á torginu á næstunni.

„Til dæmis verða tónleikar hér um helgina, sem byrja annað kvöld, og síðan frá klukkan tvö á laugardeginum. Það munu vera viðburðir svo dögum skipta núna á næstu þremur, fjórum vikum.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×