Innlent

Tjá sig ekki fyrr en Gylfi verður ákærður eða laus allra mála

Samúel Karl Ólason skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson á leik íslenska landsliðsins í Manchester á fimmtudaginn.
Gylfi Þór Sigurðsson á leik íslenska landsliðsins í Manchester á fimmtudaginn. Vísir/Vilhelm

Lögreglan í Manchester ætlar ekki að tjá sig frekar um mál Gylfa Þórs Sigurðssonar, fyrr en hann verður ákærður eða laus allra mála. Farbann Gylfa rann út á laugardaginn en ekki hafa fengist svör um hvort það hafi verið eða verði yfir höfuð framlengt.

Á laugardaginn, þann 16. júlí, var ár síðan Gylfi var handtekinn á heimili sínu í Manchester en hann er sakaður um meint brot gegn ólögráða stúlku.

Gylfi hefur verið í farbanni frá því hann var handtekinn.

Í svörum við fyrirspurnum Vísis segja fjölmiðlafulltrúar lögreglunnar í Manchester að ekki standi til að veita frekari upplýsingar, fyrr en Gylfi hefur verið ákærður eða málið gegn honum fellt niður.

Samningur Gylfa við knattspyrnufélagið Everton rann út í júní og er Gylfi nú ekki á samning hjá neinu félagi. Fregnir hafa þó borist af því að forsvarsmenn Galatasaray í Tyrklandi hafi boðið Gylfa tveggja ára samning.

Sjá einnig: Segja að Galatasaray hafi boðið Gylfa 280 milljónir í laun á ári

Nafn Gylfa hefur ekki ratað í breska fjölmiðla. Það er vegna laga í Bretlandi sem ætlað er að vernda þolendur og koma í veg fyrir að umfjöllun hafi áhrif á réttarhöld.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×