Stefán Teitur Þórðarson var í byrjunarliði Silkeborg og spilaði þangað til honum var skipt af velli á 72. mínútu. Sævar Atli Magnússon hóf leikinn á varamannabekk Lyngby en kom inn á leikvöllinn á 68. mínútu. Freyr Alexandersson er knattspyrnustjóri Lyngby en leikurinn var frumraun Freys og Sævars í dönsku úrvalsdeildinni.
Lyngby byrjaði betur er Kristian Riis kom liðinu yfir á 43. mínútu eftir að hafa komið inn á sem varamaður átta mínútum áður. Snemma í síðari hálfleik fékk Lyngby vítaspyrnu sem Mathias Kristensen skoraði úr á 51. mínútu.
Nicklas Helenius minnkaði þó muninn með marki á 55. mínútu áður en hann jafnaði leikinn á 78. mínútu og þar við sat. Bæði lið eru því með eitt stig í deildinni eftir fyrstu umferð.
Næsti leikur Lyngby er gegn Aroni Sigurðarsyni og félögum í Horsens mánudaginn 25. júlí en Silkeborg mætir Elíasi Rafni Ólafssyni og hans samherjum í Midtjylland næsta föstudag.