Innlent

Lilja gagnrýnir miklar arðgreiðslur á sama tíma og verð hækkar

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Lilja Dögg Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra segir alla þurfa að líta í eigin barm vegna verðbólgunnar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra segir alla þurfa að líta í eigin barm vegna verðbólgunnar. vísir/Vilhelm

Viðskiptaráðherra segir alla þurfa að leggja sitt af mörkum til þess að draga úr verðbólguþrýstingi. Hún tekur undir gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar á miklar arðgreiðslur fyrirtækja á sama tíma og verð hækkar.

Verðbólga mælist nú 8,8 prósent og hefur ekki verið meiri í þrettán ár en greiningadeildir spá því að verðbólgan nálgist tveggja stafa tölu í sumar. Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra segir stjórnvöld þurfa að vera vakandi yfir þróuninni.

„Það er alveg ljóst að verðbólgan kemur alltaf verst niður á tekjulægstu heimilunum og því þurfum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að draga úr verðþrýstingi,“ segir Lilja.

Hún bendir á að stjórnvöld hafi ráðist í 26 milljarða króna aðhaldsaðgerðir fyrir næsta ár vegna ástandsins. Þær hafa áður verið kynntar og felst meðal annars í að dregið er úr útgjaldasvigrúmi stjórnvalda og minni aflsáttur verður á gjöldum á áfengi og tóbaki í fríhöfninni.

„Þarna erum við að leggja okkar af mörkum til þess að minnka þrýstinginn.“

Alþýðusambandið og Neytendasamtökin eru meðal þeirra sem hafa gagnrýnt arðgreiðslur fyrirtækja sem séu á sama tíma að hækka verð á vörum. Hagar sem eiga Bónus, Hagkaup og Olís högnuðust til að mynda um fjóra milljarða á síðasta ári og greiða út ríflega tveggja milljarða króna arð á árinu. Festi, sem rekur meðal annars Krónuna greiðir út 1,6 milljarða króna arð á árinu.

Lilja tekur undir gagnrýnina.

„Vegna þess að þetta er þannig að við þurfum öll að líta í eigin barm og leggja okkar að mörkum til að stuðla að því að það dragi úr verðbólguþrýstingi og styðja við seðlabankann, þannig að hann þurfi ekki að fara í mjög umfangsmiklar stýrivaxtahækkanir. Vegna þess að þær þýða eitt; það er minni neysla, það er minni fjárfesting, minni hagvöxtur og minni kaupmáttur og það kemur illa við okkur öll,“ segir Lilja Alfreðsdóttir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.