Innlent

Einn af þremur ofnum Elkem úti í um viku vegna brunans

Atli Ísleifsson skrifar
Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem á Íslandi, segir starfsmennina vera sannkallaðar rokkstjörnur enda hafi þeim tekist að koma í veg fyrir að tjónið yrði mun meira.
Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem á Íslandi, segir starfsmennina vera sannkallaðar rokkstjörnur enda hafi þeim tekist að koma í veg fyrir að tjónið yrði mun meira. Elkem

Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem á Íslandi, segist reikna með að einn ofn af þremur í kísilverinu verði úti í um viku tíma vegna viðgerðar sem framundan er eftir að eldur kom upp í verinu í nótt. Enginn slasaðist og segir hún að starfsmenn hafi náð að koma í veg fyrir að tjónið yrði mun meira.

Tilkynnt var um eldinn um klukkan tvö í nótt, en hann kom upp á jarðhæð. „Starfsmenn kölluðu til slökkvilið og náðu að halda eldinum niðri og voru í raun búnir að ná að taka mesta þungann áður en slökkvilið mætti,“ segir Álfheiður.

Hún segir að verið sé að meta stöðuna núna enda stutt síðan eldurinn kom upp. „Við erum að þrífa, meta tjónið og kanna hvað þurfi að laga.“

Ljóst er að tjónið sé nokkuð. „Já, það er náttúrulega framleiðslutap og viðgerð á búnaði sem skemmdist.“

Kísilver Elkem á Grundartanga.Vísir/Vilhelm

Eldur í töppunarpalli

Álfheiður segir að eldurinn hafi komið upp á töppunarpalli ofnsins. „Þetta er búnaður sem er notaður til að opna töppunarholurnar á ofninum, þar sem málmurinn er sóttur. Þetta er pallurinn sem heldur uppi þeim búnaði, það kviknar í undir honum. En það er of snemmt að segja til um hvað nákvæmlega olli því að eldurinn kom upp. Var þetta glussi? Var þetta rafmagn? Við höfum ekki hugmynd um það á þessu stigi máls.“

Hún er mjög ánægð með viðbrögð starfsmanna kísilversins. „Starfsmennirnir eru rokkstjörnur. Þetta er alveg ótrúlegur hópur af fólki. Þeir stukku allir til og náðu að koma í veg fyrir mun meira tjón. Ef eldurinn hefði gengið að ganga frjáls þarna um hefði tjónið orðið mun, mun meira. En það mikilvægasta er auðvitað að enginn slasaðist.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.