Innlent

Eins árs fangelsi fyrir smygl á lítra af am­feta­mín­basa

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða málsvarnarlaun, aksturskostnað verjanda og annan sakarkostnað, alls um 1,4 milljónir króna.
Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða málsvarnarlaun, aksturskostnað verjanda og annan sakarkostnað, alls um 1,4 milljónir króna. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt pólskan karlmann í tólf mánaða fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnabrot eftir að hafa reynt að smygla tæpum lítra af vökva sem innihélt amfetamínbasa til Íslands með flugi frá Varsjá. Maðurinn hafði samþykkt að flytja efnið til landsins gegn greiðslu.

Amfetamínbasinn hafði 35 prósenta styrkleika og var hann ætlaður til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Í ákæru segir að maðurinn hafi flutt vökvann til landsins í glerflösku í farangri sínum, þegar hann kom til landsins með flugi frá Varsjá í Póllandi 24. apríl síðastliðinn.

Fyrir dómi játaði maðurinn afdráttarlaust sök. Í dómi segir að ekkert hafi komið fram um það að ákærði hafi verið eigandi efnisins né tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi þess til Íslands með öðrum hætti en þeim að samþykkja að flytja efnin til landsins gegn greiðslu.

Til frádráttar refsivistinni kemur gæsluvarðhaldsvist sem maðurinn hefur sætt frá 25. apríl 2022. Maðurinn er jafnframt dæmdur til að greiða málsvarnarlaun, aksturskostnað verjanda og annan sakarkostnað, alls um 1,4 milljónir króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×