Innlent

Eldurinn kviknaði lík­lega út frá gas­brennara

Árni Sæberg skrifar
Slökkviliðið hefur ráðið niðurlögum eldsins.
Slökkviliðið hefur ráðið niðurlögum eldsins. Stöð 2/Bjarni

Slökkvilið var eldsnöggt á vettvang þegar eldur kviknaði í klæðningu atvinnuhúsnæðis í Dalshrauni í Hafnarfirði í dag. Slökkvistarf gekk vel og slökkviliðsmönnum tókst að koma í veg fyrir mikið tjón.

Hlynur Höskuldsson, varðstjóri aðgerðastjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, segir í samtali við Vísi að líklegast hafi eldurinn kviknað út frá gasbrennara sem verið var að nota til að brenna arfa. „Það er ekki sniðugt ef þú ert með svona klæðningu. Þá getur eldurinn borist í það sem er undir klæðningunni, sem er bara tjörupappi,“ segir hann. 

Þó hafa upptök eldsins ekki verið staðfest enn sem komið er.

Hlynur segir að slökkvilið hafi verið komið á vettvang örskömmu eftir að eldurinn kom upp. Slökkvistöðin í Hafnarfirði er í um 650 metra fjarlægð frá Dalshrauni 4 þar sem eldurinn kviknaði.

Skjótur viðbragðstími slökkviliðs kom í veg fyrir að eldurinn næði að læsast í þak hússins eða aðliggjandi byggingar. Slökkviliðsmenn rifu klæðningu af einu bili hússins og reykræstu innandyra.

Nokkur fjöldi starfsfólks var inni í húsnæðinu en það hýsir lyfjafyrirtæki. Fólkið var ekki nálægt upptökum eldsins og ekki í hættu.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×