Innlent

Ís­­­lendingar of ó­þolin­móðir gagn­vart er­­lendum hreim

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus, kenndi íslenska málfræði við Háskóla Íslands í meira en 30 ár.
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus, kenndi íslenska málfræði við Háskóla Íslands í meira en 30 ár. Vísir/Arnar

Prófessor í ís­lensku hvetur Ís­lendinga til að sýna út­lendingum sem tala ó­full­komna ís­lensku eða ís­lensku með sterkum hreim þolin­mæði. Hann var á­nægður með á­varp fjall­konunnar í ár sem flutti ís­lenskt ljóð á þjóð­há­tíðar­daginn með sterkum pólskum hreim.

Fjall­konan í ár var Sylwia Za­jkowska sem flutti til landsins frá Pól­landi en hún flutti ljóð í til­efni þjóð­há­tíðar­dagsins 17. júní, samið af Brynju Hjálms­dóttur.

En sú stað­reynd að fjall­konan væri pólsk í ár og flytti á­varp sitt með á­berandi pólskum hreim virðist hafa farið fyrir brjóstið á sumum, sem eru þeirrar skoðunar að fjall­konan eigi að tala á lýta­lausri ís­lensku.

„Ég skil það svo sem vel í þessu til­viki að sumum hafi gengið mis­jafn­lega að skilja fjall­konuna því að auð­vitað var sterkur er­lendur hreimur í máli hennar,“ segir Ei­ríkur Rögn­valds­son prófessor emerítus við ís­lensku­deild Há­skóla Ís­lands. Hann var gestur þáttarins Sprengi­sands á Bylgjunni í morgun.

„Við erum svo vön því að búa í ein­tyngdu sam­fé­lagi. Við erum ekkert vön því að heyra til fólks sem ekki á ís­lensku að móður­máli.“

Þetta telur Ei­ríkur eina helstu á­stæðu þess hve Ís­lendingar geta verið ó­þolin­móðir gagn­vart fólki af er­lendum upp­runa sem reynir að tala ís­lensku.

Óttast að fólk læri ekki íslensku og einangrist

Hann bendir á að hér búi fjöldi fólks af er­lendum upp­runa og að þeim muni fjölga í fram­tíðinni.

„Við þurfum bara að gera það upp við okkur; ætlum við að auð­velda þessu fólki að ná valdi á ís­lensku og sýna því þá þolin­mæði á meðan það er að læra málið eða ætlum við að vera ó­sveigjan­leg í kröfum um ein­hverja full­komna ís­lensku, full­kominn fram­burð og full­komnar beygingar og svo fram­vegis?“ segir Ei­ríkur.

Fari Ís­lendingar seinni leiðina telur hann ljóst að hér yrðu til stórir hópar sem ná aldrei valdi á ís­lensku.

„Og þeir ein­angrast bara í sam­fé­laginu. Og það er náttúru­lega stór­hættu­legt bæði fyrir ís­lenskuna og náttúru­lega fólkið sjálft og bara lýð­ræðið í landinu,“ segir Ei­ríkur.

Hann bendir á að það að taka á móti fólki inn í sam­fé­lagið feli í sér að taka á móti því á öllum sviðum þess. Líka þegar kemur að vali á fjall­konunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.