Innlent

Ketilkaffi á Skógardeginum mikla í Hallormsstað

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Bergrún Arna, aðstoðarskógarvörður í Hallormsstað, sem vottar það með tungunni að það sé ekkert lúsmý og lítið, sem ekkert af öðru mýi í skóginum. Gestir Skógardagsins mikla þurfa því ekki að hafa neinar áhyggjur á morgun að koma bitnir heim.
Bergrún Arna, aðstoðarskógarvörður í Hallormsstað, sem vottar það með tungunni að það sé ekkert lúsmý og lítið, sem ekkert af öðru mýi í skóginum. Gestir Skógardagsins mikla þurfa því ekki að hafa neinar áhyggjur á morgun að koma bitnir heim. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Það verður mikið um að vera í Hallormsstaðarskógi í Fljótsdal á morgun laugardag, því Skógardagurinn mikli fer þá fram. Fjölbreytt dagskrá verður í boði, svo ekki sé minnst á ketilkaffið, sem boðið verður upp á að skógarmannasið.

Undirbúningur fyrir Skógardaginn mikla hefur staðið yfir síðustu vikur í Hallormsstað en það hefur ekki verið hægt að halda daginn hátíðlegan síðustu tvö ár vegna Covid.

Reiknað er með að um tvö þúsund manns mætti á daginn og taki þátt í hátíðarhöldum en dagskráin hefst klukkan tólf með Íslandsmeistaramóti í skógarhöggi.

„Síðan verður grillað heilt naut, lambakjöt verður líka grillað, pylsur í hundraða vís verða í boði, lummur og ketilkaffi og svo megum við ekki gleyma sviðinu. Magni kemur þar fram og fleiri skemmtikraftar,“ segir Bergrún Arna Þorsteinsdóttir, aðstoðarskógarvörður hjá Skógræktinni í Hallormsstað.

Reiknað er með fjölda fólks á Skógardaginn mikla í Hallormsstað laugardaginn 25. júní. Dagskráin hefst klukkan 12:00.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Bergrún lofar mjög góðu veðri á morgun og góðri stemmingu. Hún segir alltaf mikla tilhlökkun hjá skógarbændum og öðru áhugafólki um skógrækt fyrir deginum.

Og mekka skógræktarinnar er á þessu svæði?

„Já, hún er hér á Fljótsdalshéraði og Hallormsstaðarskógur er meðal elstu skóga okkar í landinu,“ segir Bergrún og bætir strax við.

„Já, við skulum minnast á að það er ekkert lúsmý á Hallormsstað svo við þurfum ekkert að vera bitin úr skóginum hér og það er eiginlega ekkert mý í skóginum“.

Ertu að segja alveg satt?

„Já, ég er alveg að segja satt“, segir Bergrún hlægjandi um leið og hún rak út úr sér tunguna til að votta að hún væri ekki svört.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×