Innlent

Skatta­máli vísað frá héraði að ósk á­kæru­valdsins eftir á­kúrur Mann­réttinda­dóm­stólsins

Árni Sæberg skrifar
Hæstiréttur Íslands vísaði málinu frá að ósk ákæruvaldsins.
Hæstiréttur Íslands vísaði málinu frá að ósk ákæruvaldsins. Vísir/Vilhelm

Máli Ragnars Þórissonar, stofnanda vogunarsjóðsins Boreas Capital, var vísað frá héraðsdómi að ósk ákæruvaldsins í dag með öðrum dómi Hæstaréttar í málinu. Ragnar hafði betur gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu vegna málsins.

Ragnar var dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu sektar upp á 21 milljón króna í Hæstarétti árið 2014 fyrir skattalagabrot en honum hafði áður verið gerð refsing af hálfu ríkisskattstjóra með 25 prósenta álagi ofan á endurálagningu árið 2010. Brot hans fólst í því að hafa ekki talið fjármagnstekjur til skatts árið 2007.

Mannréttindadómstóll Evrópu taldi íslenska ríkið brotlegt fyrir að dæma Ragnar tvívegis til refsingar fyrir sama brot en það fer í bága við ákvæði sjöunda viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu um bann við tvöfaldri refsingu. 

Í kjölfar dóms Mannréttindadómstólsins sem féll árið 2019 fór óskaði Ragnar eftir því að mál hans yrði tekið upp aftur fyrir Hæstarétti. Endurupptökudómur féllst á beiðni Ragnars í byrjun árs 2022 með vísan til þess að dómur Mannréttindadómstólsins gæti talist ný gögn í málinu í skilningi laga um meðferð sakamála.

Þrátt fyrir að ákæruvaldið hafi lagst gegn því að málið yrði tekið upp aftur tók það undir aðalkröfu Ragnars fyrir Hæstarétti að málinu yrði vísað frá héraðsdómi.

Með vísan til reglunnar um bann við tvöfaldri refsingu, dóms Mannréttindadómstólsins og málsatvika að öðru leyti féllst Hæstiréttur á kröfu ákæruvaldsins um að málinu yrði vísað frá héraðsdómi.

Dóm Hæstaréttar má lesa í heild sinni hér og ákvörðun Endurupptökudóms hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×