Fótbolti

Mbappé íhugaði að hætta í franska landsliðinu eftir mikla kynþáttaníð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kylian Mbappé segist ekki hafa fengið vernd frá franska knattspyrnusambandinu og íhugaði að hætta í landsliðinu.
Kylian Mbappé segist ekki hafa fengið vernd frá franska knattspyrnusambandinu og íhugaði að hætta í landsliðinu. James Williamson - AMA/Getty Images

Franska stórstjarnan Kylian Mbappé íhugaði að hætta í franska landsliðinu í fótbolta eftir að leikmaðurinn verð fyrir mikilli kynþáttaníð í kjölfar þess að hann misnotaði vítaspyrnu sem varð til þess að liðið féll úr leik gegn Sviss á EM í fyrra.

Frakkar og Svisslendingar áttust þá við í spennutrylli í 16-liða úrslitum Evrópumótsins í fótbolta. Staðan var jöfn að loknum venjulegum leiktíma og framlengingar, 3-3, og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni til að skera úr um sigurvegara. Mbappé klikkaði þar á fimmtu og seinustu spyrnu heimsmeistaranna og Svisslendingar fóru því áfram í átta liða úrslit á kostnað Frakka.

Segir að franska knattspyrnusambandið hafi ekki staðið með sér

Eftir leikinn fékk Mbappé heilan helling af ljótum skilaboðum þar sem hann varð fyrir mikilli og grófri kynþáttaníð - eitthvað sem er því miður orðið allt of algengt í lífi íþróttafólks.

Noël Le Graët, forseti franska knattspyrnusambandsins, mætti í viðtal á dögunum þar sem hann sagðist hafa rætt við Mbappé fljótlega eftir mótið. Mbappé hafi þá verið tilbúinn til að yfirgefa franska landsliðið þar sem honum hafi ekki þótt franska knattspyrnusambandið standa með sér.

„Honum þótti sambandið ekki verja sig nægilega eftir að hann misnotaði vítaspyrnuna og alla þá gagnrýni sem hann fékk á sig á samfélagsmiðlum. Hann vildi ekki lengur spila fyrir franska landsliðið,“ sagði Le Graët.

Mbappé fann sig hins vegar knúinn til að svara þessum ummælum Le Graëts og skrifaði á Twitter-síðu sína að forsetinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið um kynþáttafordóma að ræða.

„Reyndar útskýrði ég mjög vel fyrir honum að þetta hafi verið í tengslum við kynþáttafordóma en ekki vítaklúðrið. En hann komst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið um kynþáttafordóma að ræða,“ skrifaði Mbappé á Twitter-síðu sína.

Sóknarmaðurinn hefur þó haldið áfram að spila fyrir franska landsliðið og skoraði bæði í undanúrslitum og úrslitum Þjóðadeildarinnar þar sem Frakkar fögnuðu sigri á seinasta ári. Þá skoraði hann einnig fjögur mörk fyrir liðið gegn Kasakstan er Frakkar tryggðu sæti sitt á HM í Katar.

Ummæli leikmannsins birtust á Twitter-í gær, stuttu eftir að alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA birti niðurstöður úr rannsókn sinni á netníð sem sneri að leikmönnum sem spiluðu á EM 2020 og Afríkukeppninni 2020. Þær niðurstöður sýna að yfir helmingur leikmanna varð fyrir netníð á meðan leik stóð, fyrir og eftir leik.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.