Innlent

Bríetar Bjarn­héðins­dóttur minnst í til­efni kven­réttinda­dagsins

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Magnea Gná Jóhannsdóttir hélt ávarp eftir að hafa lagt blómsveig að leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, baráttukonu.
Magnea Gná Jóhannsdóttir hélt ávarp eftir að hafa lagt blómsveig að leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, baráttukonu. Reykjavíkurborg

Blómsveigur var lagður að leiði baráttukonunnar Bríetar Bjarnhéðinsdóttur í Hólavallakirkjugarði í dag í tilefni kvenréttindadagsins 19. júní. 

Athöfnin var sett við undirleik Unu Torfadóttur en varaforseti borgarstjórnar, Magnea Gná Jóhannsdóttir, lagði blómsveiginn að leiði Bríetar eftir að hafa flutt stutt ávarp.

Í dag eru 107 ár liðin síðan íslenskar konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.

Bríet Bjarnhéðinsdóttur átti ríkan þátt í að koma á réttarbótum konum til handa og efla þannig lýðræðissamfélagið í heild sinni. Hún var stofnandi Kvenréttindafélags Íslands og var fyrsti formaður félagsins frá stofnun allt til ársins 1928. 

Una Torfadóttir lék ljúfa tóna á gítarinn og söng á athöfninni. Una gaf nýverið út sína fyrstu plötu, Flækt og ung og einmana.Reykjavíkurborg

Konur í Reykjavík buðu fram sérstakan Kvennalista fyrir bæjarstjórnarkosningar árið 1908 og var það fyrsta sérframboð kvenna á Íslandi. Kvennalistinn vann stórsigur, kom öllum sínum fulltrúum að. Konurnar fjórar, þær fyrstu sem settust í bæjarstjórn Reykjavíkur, voru Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Guðrún Björnsdóttir, Katrín Magnússon og Þórunn Jónassen. Málin sem þær börðust fyrir í bæjarstjórn voru m.a. sundkennsla, fyrir bæði kynin, og leikvellir fyrir börn.  Bríet Bjarnhéðinsdóttir beitti sér jafnframt fyrir því í bæjarstjórn að börn fengju mat í skólanum. Bríet lést í Reykjavík árið 1940.

Þær Ronja Sif Matthíasdóttir og Aría Björk Daníelsdóttir gengu með kransinn og afhentu Magneu Gná.Reykjavíkurborg

Þann 19. júní 1915 undirritaði Kristján X. konungur lög um breytingu á stjórnarskrá Íslands sem m.a. færðu konum 40 ára og eldri kosningarétt til Alþingis. Íslenskar konur fögnuðu þessum tímamótum með hátíðarhöldum í Reykjavík þann 7. júlí, sama dag og Alþingi kom saman til fundar. 19. júní hefur síðan verið sérstakur kvenréttindadagur. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.