Innlent

Milljónir tapist vegna hva­ta­kerfis fast­eigna­sala

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
FotoJet (23)

Haukur Viðar Alfreðsson, doktorsnemi í hagfræði, hefur undanfarnar vikur vakið máls á slæmri stöðu á fasteignamarkaði og gagnrýnt feitar söluþóknanir fasteignasala. Í skoðanagrein sem Haukur birti á Vísi í dag bendir hann á að hvatakerfi fasteignasala sé þannig uppbyggt að betra sé fyrir fasteignasala að selja eignir hratt á lágu verði fremur en að bíða lengur og fá betra verð.

Þá hvetur Haukur seljendur til að selja eign sínar sjálfir og ráða fasteignasala sér til aðstoðar við afmarkaða þætti sölunnar líkt og verðlagningu eða skjalagerð á föstu gjaldi.

Fengu minna fyrir eignirnar

Haukur vísar til rannsóknar Stanford háskóla í Bandaríkjunum þar sem seljendur sem nýttu sér fasteignasala hafi að meðaltali fengið 5,9% til 7,7% lægra verð fyrir eignir sínar en þeir sem seldu þær sjálfir.

Hann telur að svipaðar aðstæður séu uppi hér á landi. Hér sé auðvelt að auglýsa eignir á fasteignavefjum, samfélagsmiðlum og í dagblöðum. Því eigi niðurstöður Stanford rannsóknarinnar erindi við íslenskan almenning.

„Hver kannast ekki við að hafa heyrt af margmenni á opnum húsum og fjölda tilboða í hverja eign um leið og þær eru komnar á sölu? Jafnvel tilboð um staðgreiðslu á yfirverði? Allt eru þetta merki um lélega verðlagningu á eigninni, líklega af hálfu fasteignasala.“

Milljónir á milljónir ofan tapist

„Ég hef ekkert að gera við fullt hús af fólki sem telur sig komið á útsölu. Það er hins vegar rosalega fínt fyrir fasteignasalann, auðveld sala með himinhárri söluþóknun, þó það kosti viðskiptavininn milljónir á milljónir ofan,“ skrifar Haukur jafnframt.

Hann segir nóg komið af því að greiða milljónir í söluþóknanir og tapa enn fleiri milljónum vegna lélegs verðmats.

„Væri þá ekki nær að spara sér peninginn eða kaupa næstu eign fullbúna með gólfefnum, innréttingum og öllum nútíma lúxus í stað þess að láta peninginn hverfa í vasa fasteignasala og eitthvert annað?“ skrifar Haukur að lokum í grein sinni.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×