Innlent

Svínaði fyrir lög­reglu­bíl númerslaus, undir á­hrifum fíkni­efna og án öku­réttinda

Bjarki Sigurðsson skrifar
Lögreglan hafði í ýmis horn að líta.
Lögreglan hafði í ýmis horn að líta. Vísir/Vilhelm

Það var nóg um að vera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt samkvæmt dagbók lögreglu. Þónokkrir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis.

Klukkan tæplega hálf fimm í nótt keyrði ökumaður í veg fyrir lögreglubifreið og inn á bílastæði í Hlíðunum. Bíllinn var númerslaus og var ökumaður með einn farþega í bílnum. Þeir fóru báðir úr bílnum og komst farþeginn undan. Ökumaðurinn var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum, vörslu fíkniefna og brot á lyfjalögum. 

Klukkan rétt rúmlega átta í gærkvöldi hafði lögregla afskipti af öðrum manni í Hlíðunum sem var í mjög annarlegu ástandi. Hann var handtekinn sökum ástands og vistaður í fangageymslu. Við vistun fannst rafstuðbyssa hjá manninum og verður hann kærður fyrir brot á vopnalögum.

Lögreglan handtók mann á heimili sínu í Kópavogi þar sem hann er grunaður um framleiðslu fíkniefna og voru efni og búnaður haldlagt.

Klukkan rúmlega níu hafði lögreglan afskipti af manni í annarlegu ástandi sem svaf í bifreið í Grafarvoginum. Hann er grunaður um vörslu fíkniefna og voru kveikjuláslyklar bifreiðarinnar haldlagðir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×