Innlent

Telja fullvíst að viðvörunin hafi verið villuskilaboð

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Nadine Guðrún Yaghi er samskiptastjóri Play.
Nadine Guðrún Yaghi er samskiptastjóri Play.

Í nótt var rauðu neyðarstigi lýst yfir á Keflavíkurflugvelli vegna farþegaþotu PLAY sem var að koma inn til lendingar. Kerfi vélarinnar sendi viðvörun um að vandamál væri með varaeldsneyti en forsvarsmenn telja fullvíst að um villu hafi verið að ræða. Til stóð að sama vél færi til Parísar í dag en fluginu hefur verið frestað til morguns því verið er að ganga úr skugga um að ekkert sé að vélinni.

Þegar rauðu neyðarstigi er lýst yfir fara viðbragðsaðilar á hæsta viðbúnaðarstig. Kerfi flugvélarinnar sendi skilaboð um að vandamál væru með varaeldsneyti. Nadine Guðrún Yaghi samskiptastjóri Play segir að nú sé talið fullvíst að þetta hafi verið villumelding.

„Á flugi frá Malaga í gærkvöldi koma villuskilaboð frá eldsneytiskerfi vélarinnar og í raun eru þetta bara skilaboð um að það sé ekki allt eðlilegt og snýr að varaeldsneyti sem okkar ferlar gera ráð fyrir að sé um borð í vélinni þegar hún lendir en það var nóg eldsneyti þannig að eins og staðan er núna teljum við nánast fullvíst að þetta hafi verið villuskilaboð og að allt hafi verið í lagi. Við erum í þessum töluðu orðum að yfirfara allt saman og rannsaka málið.“

Nadine segir að þegar villuskilaboð koma upp þá sé neyðarstig liður í varúðarráðstöfunum. Flugfarþegar hafi ekki verið í neinni hættu á neinum tíma. Nadine sagði að engin hræðsla hefði gripið um sig á meðal farþega. 

„Vélin lendir í rauninni bara eðlilega og allt er með felldu og þeir látnir vita að það sé bilun í kerfum og að það væri viðbúnaður á vellinum.“ 

Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar nú málið og segir Nadine að Play muni veita allar þær upplýsingar sem óskað verður eftir.

Þurftu að aflýsa flugi til Gautaborgar vegna veikinda

Flugi flugfélagsins til Gautaborgar var þá aflýst í morgun með skömmum fyrirvara vegna veikinda í áhöfn. Ekki tókst að manna áhöfn í tæka tíð.

„Þetta er leiguvél sem við erum með á leigu til 1. júlí þar til við fáum okkar settu vél. Vélin er leigð með áhöfn og þeir gátu ekki uppfyllt það að vera með áhöfn vegna veikinda.“

Nú sé unnið hörðum höndum að því að koma farþegunum til Gautaborgar.

„Einhverjir eru komnir á hótel og við erum að gera ráð fyrir að það verði flogið til Gautaborgar síðar í dag.“


Tengdar fréttir

Rautt neyðarstig á Keflavíkurflugvelli í nótt

Lýst var yfir rauðu neyðarstigi á Keflavíkurflugvelli í nótt þegar farþegaþota á leið frá Malaga til Keflavíkur lenti í vandræðum. Vélin lenti í Keflavík klukkan rúmlega hálf tvö í nótt og neyðarstigi aflétt í kjölfarið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.