Fótbolti

Enn eitt jafntefli Óttars og félaga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Óttar Magnús í leik með Oakland Roots.
Óttar Magnús í leik með Oakland Roots. Twitter@oaklandrootssc

Óttar Magnús Karlsson og félagar hans í Oakland Roots björguðu stigi enn eina ferðina er liðið tók á móti Rio Grande Toros í bandarísku USL-deildinni í fótbolta í nótt.

Óttar og félagar lentu undir strax á 14. mínútu leiksins og aðeins tíu mínútum síðar var Wahab Ackwei búinn að tvöfalda forystu gestanna.

Staðan var því 0-2 þegar flautað var til hálfleiks, en það átti ekki eftir að breytast fyrr en að rúmar tíu mínútur voru til leiksloka þegar Juan Azocar minnkaði muninn fyrir heimamenn.

Það var svo Charlie Dennis sem jafnaði metin fyrir Oakland á 88. mínútu og tryggði liðinu jafntefli, 2-2.

Óttar Magnús lék allan leikinn í fremstu víglínu fyrir Oakland Roots en komst ekki á blað. Hann hefur skorað tíu mörk á tímabilinu og er markahæsti maður deildarinnar. Oakland Roots situr í áttunda sæti deildarinnar með 20 stig eftir 16 leiki, en þar af hefur liðið gert átta jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×