Innlent

Héraðs­vötn færð í bið­flokk: „Ég er mjög dapur yfir þessari niður­stöðu sem ég styð ekki“

Árni Sæberg skrifar
Bjarna Jónsyni, þingmanni Vinstri grænna, líst ekkert á að Héraðsvötn verði færð úr verndunarflokki.
Bjarna Jónsyni, þingmanni Vinstri grænna, líst ekkert á að Héraðsvötn verði færð úr verndunarflokki. Vísir/Vilhelm

Þingmaður Vinstri grænna ritar ekki undir álit meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Hann segir niðurstöðu meirihlutans vera sér mikil vonbrigði og þar standi hæst að Héraðsvötn í Skagafirði hafi verið færð í biðflokk úr verndunarflokki.

„Ég myndi aldrei styðja tillögu um annað en að hafa jökulsárnar í Skagafirði í verndunarflokki. Aldrei nokkurn tímann,“ segir Bjarni Jónsson, alþingismaður Norðvesturkjördæmis Vinstri grænna og annar varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar, í samtali við Vísi.

Hann segir verndun jökulánna í Skagafirði hafa verið eitt helsta baráttumál í sveitarstjórnarmálum í Skagafirði, sem hann sinnti um árabil áður en hann var kosinn á Alþingi.

Hann segir niðurstöðu nefndarinnar um að samþykkja að færa Héraðsvötn í biðflokk stinga í stúf í ljósi ótvíræðs verndargildis jökulsánna og þeirrar aðferðafræði sem beitt er við mat á verndargildi. Niðurstaða nefndarinnar endurspegli ekki þá faglegu niðurstöðu sem komist hefur verið að um verndargildi ánna.

Þá segir Bjarni að ekki megi gleyma mikilvægi náttúruverndar og verndun vistkerfa í umræðunni um orkuskipti. Hrein orka og verndun vistkerfa verði að fara saman. Hann segir ýmislegt í áliti nefndarinnar benda til að náttúrvernd eigi í vök að verjast. Okkur beri skylda til að vernda náttúruna, bæði fyrir komandi kynslóðir og náttúruna sjálfa.

Álitið má lesa hér.

Fyrrverandi flokksbróðir slær á sama streng

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, slær á sama streng og Bjarni í innsendri grein hér á Vísi sem hann birti í dag. 

Hann segir þær breytingar sem ríkisstjórnin hefur lagt til á rammaáætlun, og umhverfis- og samgöngunefnd samþykkti í dag, hafi ekki verið byggðar á faglegum rökum, heldur pólitískum hrossakaupum innan ríkisstjórnarinnar.

Í greinni nefnir Andrés þrjár ákvarðanir meirihluta nefndarinnar, sem hann telur verstar. Þar á meðal er ákvörðunin um að færa Héraðsvötn í biðflokk. 

„Héraðsvötnin eru færð úr vernd í biðflokk, vegna þess að meirihlutanum þykir áhrif virkjana hafa verið ofmetin. Þar er málum snúið á haus, því Héraðsvötnin fóru í verndarflokk fyrir að vera einfaldlega með dýrmætustu náttúruna,“ segir Andrés.

Hann segir meirihlutann standa rækilega með hagsmunum virkjunaraðila frekar en náttúrunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.