Fótbolti

Wales á HM í fyrsta sinn í 64 ár

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gareth Bale átti aukaspyrnu sem Andriy Yarmolenko skallaði í eigið net.
Gareth Bale átti aukaspyrnu sem Andriy Yarmolenko skallaði í eigið net. Ian Cook - CameraSport via Getty Images

Wales er komið á heimsmeistaramót karla í fótbolta í annað sinn í sögu landsins. Liðið vann 1-0 sigur á Úkraínu í umspilsleik um HM-sæti í Cardiff í dag.

Leikur dagsins átti upprunalega að fara fram í mars, en þá tryggðu bæði Portúgal og Pólland sér sæti á HM í gegnum umspilið. Wales tryggði sér þá sæti í úrslitaleiknum með 2-1 sigri á Austurríki en vegna stríðsins í Úkraínu var leik liðsins við Skotland í undanúrslitunum frestað fram á sumar.

Úkraína vann öruggan 3-1 sigur á Skotlandi í vikunni og því ljóst að liðin tvö myndu keppa um sæti í á HM í Katar.

Úkraínumenn voru sterkari aðilinn framan af en tókst illa að skapa sér færi. Wales náði forystunni á 34. mínútu þegar Gareth Bale, sem vann nýverið fimmta Meistaradeildartitil sinn með Real Madrid, skaut að marki úr aukaspyrnu en Andriy Yarmolenko, sem er nýfarinn frá liði West Ham, gerði tilraun til að skalla skot Bales frá. Það gekk ekki betur en svo að Yarmolenko skallaði boltann framhjá Georgiy Bushchan, markverði Úkraínu, í eigið net.

Bæði lið áttu sín færi í síðari hálfleik en bæði Bushchan og Wayne Hennessey, sem lék sinn 102. landsleik milli stanga Wales, stóðu sig vel. Mörkin urðu ekki fleiri og því réði sjálfsmark Yarmolenko úrslitum.

Wales er því komið á HM í annað sinn í sögu landsins, í fyrsta skipti síðan 1958. Wales verður í B-riðli með Englandi, Bandaríkjunum og Íran og spilar sinn fyrsta leik við Bandaríkin þann 21. nóvember.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.