Innlent

Segir ekki á dag­skrá hjá borginni að fjölga aug­lýsinga­skiltum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Bjarni Rúnar Ingvarsson er deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg.
Bjarni Rúnar Ingvarsson er deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg. Vísir/Ívar

Deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg segir borgina meðvitaða um gagnrýni á fjölda auglýsingaskilta á borgarlandi og að hún sé skiljanleg. Ekki standi til að fjölga skiltum í borginni.

Í Reykjavík eru fimmtíu stafræn auglýsingaskilti víðs vegar um borgarlandið, þannig að sumum þyki nóg um.

Auk þeirra fjörutíu einkareknu skilta sem finna má um borgina eru tíu skilti sem Reykjavíkurborg hefur umráð yfir. Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna og íbúi í Hlíðunum, ræddi við Vísi í gær og sagði að sér hugnaðist ekki að Reykjavík hygðist setja upp auglýsingaskilti við Klambratún. Hann teldi að verið væri að auglýsingavæða almannarými og sagði borgina fara fram hjá skipulagi.

Deildarstjóri hjá borginni segir ekki standa til að fjölga skiltunum og ekki sé verið að fara fram hjá hverfisskipulagi. Verið sé að auglýsa deiliskipulagsbreytingu.

„Það sem kemur í raun og veru ekki fram er að auglýsingastandar sem hafa verið þarna í kring verða lagðir niður, og þessi eini kemur í staðinn. Síðan í framtíðinni, þegar nýtt leiðanet Strætó tekur gildi í kringum 2025, munu strætóskýlin sem eru hér hverfa af sjónarsviðinu einnig,“ segir Bjarni Rúnar Ingvarsson, starfandi deildarstjóri samgangna hjá Reykjavíkurborg.

Samtalið vanti

Auglýsingum á svæðinu muni því fækka í komandi framtíð. Borgin hafi orðið vör við gagnrýni fólks á fjölda auglýsinga í almannarými.

„Það hefur vantað þetta samtal um auglýsingaskiltin í borgarlandinu, og þá tala ég nú ekki um þessi sem eru jafnvel stærri og eru að reyna að fanga athygli við gatnamót og þess háttar. Þannig að ég tek heilshugar undir þá gagnrýni,“ segir Bjarni Rúnar.

Ekki standi til að fjölga auglýsingastöndum í borginni.

„Borgarlandið er það sem við höfum helst, okkar helsta gersemi.“


Tengdar fréttir

Harmar aug­­lýsinga­­væðingu al­manna­­rýmisins

Íbúa í Hlíðahverfi er ekki skemmt yfir áformum Reykjavíkurborgar um að setja upp auglýsingaskilti við Klambratún en það væri þriðja slíka skiltið á aðeins tvö hundruð metra kafla meðfram túninu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×