Fótbolti

UEFA biður Liverpool og Real Madrid afsökunar

Atli Arason skrifar
Stade de France leikvangurinn rétt áður en úrslitaleikur Real Madrid og Liverpool hófst.
Stade de France leikvangurinn rétt áður en úrslitaleikur Real Madrid og Liverpool hófst. Getty Images

Tæpri viku eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar í París hefur knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, loks beðist afsökunar á þeirri óreiðu sem varð fyrir utan Stade de France leikvanginn.

„UEFA biðst innilegar afsökunar til allra þeirra stuðningsmanna sem upplifðu eða urðu vitni af hræðilegum atburðum í aðdraganda úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Enginn stuðningsmaður á að þurfa að upplifa svona lagað og þetta má ekki koma fyrir aftur,“ segir í yfirlýsingu frá UEFA.

Aðkoma stuðningsmanna að leikvanginum var ekki nægilega vel skipulögð og sérstaklega sú sem sneri að stuðningsmönnum Liverpool. Stuðningsmennirnir voru síðar beittir táragasi þegar sumir þeirra reyndu í örvæntingu sinni að komast inn á leikvöllinn.

Fyrstu viðbrögð UEFA við atburðunum var að seinka leiknum og skella sökinni á stuðningsmenn sem komu of seint á völlinn. Síðar gaf knattspyrnusambandið þær útskýringar að seinkunin var vegna þess hve margir stuðningsmenn voru með falsaða miða.

Strax að leik loknum skipaði UEFA í óháða nefnd sem átti að fara yfir það sem fór úrskeiðis með því markmiði að greina mistök og draga lærdóm af atburðunum.

Nefnd UEFA mun fara yfir atburðina frá A til Ö, alveg frá því að stuðningsmenn beggja liða komu saman og þá leið sem þeir fóru að leikvanginum. Einnig munu almennir óháðir áhorfendur vera skoðaðir og farið yfir störf og viðbrögð frönsku lögreglunnar, franska knattspyrnusambandsins og starfsfólks Stade de France.

Portúgalinn Tiago Brandão Rodrigues mun leiða störf nefndarinnar og skýrslan verður birt um leið og hún er klár, að sögn UEFA.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.