Innlent

Fjórir sögðu upp í dag: „Við erum búin að hrópa og kalla og biðja um hjálp“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Soffía Steingrímsdóttir ákvað að segja upp í gær en hún bindur enn vonir við að eitthvað breytist. 
Soffía Steingrímsdóttir ákvað að segja upp í gær en hún bindur enn vonir við að eitthvað breytist.  Vísir/Egill

Fjórir hjúkrunarfræðingar sögðu í dag upp störfum á bráðamóttöku vegna álags. Ein þeirra segir algjört ráðaleysi í heilbrigðismálum. Manneklan sé gríðarleg og hún telur ljóst að staðan eigi eftir að versna. Heilbrigðisráðherra segir að byggja þurfi upp innviði og styðja við þá takmörkuðu auðlind sem heilbrigðisstarfsfólk er. Mikil áskorun sé þó fram undan. 

Álagið á bráðamóttöku hefur verið gríðarlegt um nokkurt skeið og hefur Landspítali ítrekað varað við stöðunni, nú síðast í síðustu viku. Alls sögðu fjórir hjúkrunarfræðingar upp störfum í dag vegna viðvarandi álags samkvæmt heimildum fréttastofu. 

Soffía Steingrímsdóttir er ein þeirra en hún segir flæðisvandann á bráðamóttöku hafa verið til staðar í mörg ár án þess að við því hafi verið brugðist.

„Álagið hefur stigmagnast. Við erum búin að hrópa og kalla og biðja um hjálp og það er bara algjört ráðaleysi í gangi virðist vera, eða þá að hlutirnir ganga svona hægt,“ segir Soffía.

Síðasta stráið var að hennar sögn þegar hátt í hundrað sjúklingar voru á bráðamóttökunni í gærkvöldi, þar af um þrjátíu innlagðir, og hún þurfti að horfa upp á bráðveikt fólk bíða klukkutímum saman. Álagið bitnar að sjálfsögðu á sjúklingum, en ekki síður starfsmönnum.

„Fólk kemur heim og er með logandi samviskubit yfir vaktinni og það hefur áhrif á okkar líf og okkar nánustu líka. Þannig þá verður maður bara að fara að hugsa sinn gang,“ segir Soffía aðspurð um hvað kom til að hún ákvað nú að segja upp.

Ástandið aðeins að versna

Fleiri virðast vera í sömu sporum en samkvæmt starfsmannakönnun sem Landspítali gerði í febrúar höfðu 27 prósent upplifað kulnunareinkenni oft eða mjög oft auk þess sem um 22 prósent höfðu íhugað alvarlega að fara í veikindaleyfi vegna kulnunar eða örmögnunar. Þá höfðu tæp 43 prósent upplifað mikla þreytu oft eða mjög oft.

„Við finnum ekki neitt annað en að ástandið sé að versna. Það er bara einhver stífla þarna í heilbrigðiskerfinu, sennilega út af manneklu, sem bitnar á okkur á bráðamóttökunni,“ segir Soffía en hún segir yfirvöld ekki hafa gert nóg til að bregðast við stöðunni.

Hún bendir á að það séu fjölmargir hjúkrunarfræðingar úti í samfélaginu sem starfi ekki við hjúkrun. „Bæði vegna vinnuaðstöðu og launum, og það þarf bara fjármagn til að laga þetta,“ segir Soffía en sjálf telur hún yfirvöld ekki hafa gert nóg.

„Maður heldur enn í einhverja örlitla von um að hlutirnir lagist áður en uppsögnin tekur gildi, því að ég elska þetta starf og ég vil vera hérna og hvergi annars staðar,“ segir Soffía.

Hafa sýnt hetjudáð í gegnum faraldurinn

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir það aðdáunarvert hvað heilbrigðisstarfsfólk hefur lagt á sig undanfarið og hefur skilning fyrir þeirri stöðu sem nú er uppi.

„Þetta er búið að vera linnulítið álag og þegar samfélagið er komið á fullt í kjölfar langvarandi álags í gegnum Covid faraldurinn, þar sem við erum að treysta á sama starfsfólkið og fór með þjóðinni í gegnum þann þungaróður, þá er þetta farið að taka verulega í,“ segir Willum.

Staðreyndin sé þó sú að þörfin sé áfram mikil nú þegar samfélagið er aftur að fara á fullt og aukinn fjöldi ferðamanna að koma til landsins, með tilheyrandi slysum og veikindum.

„Þetta snýst alltaf um þetta starfsfólk, þennan dýrmæta mannauð, sem hefur sýnt hetjudáð í gegnum þungan faraldur og svo tekur þetta álag við. Auðvitað fögnum við því að komast út úr faraldri og þiggjum frelsið en því fylgja þessar aukaverkanir,“ segir Willum.

Mikil áskorun fram undan

Að sögn ráðherrans er verið að bregðast við stöðunni meðal annars með því að fjölga hjúkrunar- og endurhæfingarrýmum á Landakoti, Reykjalundi og Árborg. Þá þurfi að efla heilbrigðisstofnanir í nágrenni við höfuðborgarsvæðið. Aðspurður um hvort verið sé að gera nóg segir Willum erfitt að svara því.

„Það er ekki skynsamlegt að svara þessu með já eða nei, það er auðvitað aldrei nóg,“ segir hann. „Við höfum haldið uppi alveg ótrúlega öflugu heilbrigðiskerfi en það er mikil áskorun fram undan í að mæta breyttri aldursamsetningu og manna þetta kerfi.“

Í grunninn þurfi síðan að efla mönnum og gera vel við þá takmörkuðu auðlind sem heilbrigðisstarfsmenn eru.

„Bæði kjör og aðbúnaður skipti ótrúlega miklu máli í þessu samhengi öllu og þess vegna legg ég áherslu á að byggja upp innviðina og svo verðum við auðvitað að treysta á sanngjarna kjarasamninga, það er það sem við verðum að treysta á,“ segir Willum.


Tengdar fréttir

Þurfa að segja upp öllum hjúkrunar­fræðingum fyrir mánaðar­mót

Öllum hjúkrunarfræðingum á Læknavaktinni verður sagt upp fyrir mánaðarmót þar sem til stendur að færa símaráðgjöf yfir til Heilsugæslunnar. Fagstjóri hjúkrunar hjá Læknavaktinni á Læknavaktinni segir það óskiljanlegt að yfirvöld ætli að færa þjónustuna á milli staða í ljósi stöðunnar innan heilbrigðiskerfisins.

Staðan mjög þung þetta vorið

Staðan á heilbrigðiskerfinu er mjög þung þetta vorið að mati yfirlæknis á bráðamóttöku Landspítalans. Þetta birtist meðal annars í því að í dag var biðlað til lítið slasaðra og veikra að leita annað en á bráðamóttöku á þessari stundu.

Nú­verandi mönnun sé farin að ógna öryggi sjúk­linga

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur gífurlegar áhyggjur af vöntun á hjúkrunarfræðingum til starfa og skorar á yfirvöld að bæta kjör og starfsumhverfi til að fjölga hjúkrunarfræðingum í heilbrigðiskerfinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×