Innlent

Þyrlan send til Eyja vegna þoku í Reykja­vík

Árni Sæberg skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar þurfti að sækja veikan einstakling til Vestmannaeyja vegna veðurskilyrða í höfuðborginni.
Þyrla Landhelgisgæslunnar þurfti að sækja veikan einstakling til Vestmannaeyja vegna veðurskilyrða í höfuðborginni. Vísir/Vilhelm

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út í nótt til að annast sjúkraflutning frá Vestmannaeyjum þar sem flugvél gat ekki sinnt útkallinu vegna þokunnar sem lá yfir Reykjavík í nótt.

Mikil þoka hefur legið yfir höfuðborgarsvæðinu síðan í gær vegna þess hversu hlýtt loft hefur verið yfir landinu undanfarið. Þokan olli því að flugvél Mýflugs gat ekki flutt veikan einstakling frá Vestmannaeyjum í nótt.

„Það hefur komið fyrir nokkrum sinnum á þessu ári að Landhelgisgæslan hefur sinnt sjúkraflugi frá Eyjum þegar aðstæður í Vestmannaeyjum hafa verið með þeim hætti að flugvél hefur ekki getað ekki lent þar. Þá eiga þyrlurnar auðveldara um vik að lenda annars staðar á eyjunni en þetta var akkúrat öfugt í nótt. Þá var það þannig að sjúkraflugvél Mýflugs gat ekki lent á Reykjavíkurflugvelli vegna þoku. Aftur á móti heiðskýrt og sérlega gott veður í Vestmannaeyjum,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við Vísi.

Hann segir að útkallið hafa gengið vel og að sjúklingnum hafi verið komið hratt og örugglega á Landspítala.

Þá segir hann að það sem af er ári hafi Landhelgisgæslan farið óvenjumörg sjúkraflug til Vestmannaeyja vegna slæmra veðurskilyrða í Eyjum. Til að mynda hafi þyrluflugmaður lent þyrlunni á bílastæði á Hamrinum fyrir aðeins um hálfum mánuði.

Þá sótti þyrlan slasaðan franskan ferðamann til Eyja um helgina en sá hafði runnið í skriðum við Stafsnes og fallið tugi metra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×