Fótbolti

Staðgengill Elíasar hetja Midtjylland

Valur Páll Eiríksson skrifar
David Ousted varði tvær vítaspyrnur í dag.
David Ousted varði tvær vítaspyrnur í dag. Lars Ronbog / FrontZoneSport via Getty Images

Midtjylland er danskur bikarmeistari í fótbolta eftir sigur á OB í vítaspyrnukeppni eftir að liðin gerðu 0-0 jafntefli í úrslitaleiknum í Kaupmannahöfn í dag. Hinn 37 ára gamli David Ousted var hetja Midtjylland.

Hvorki Aron Elís Þrándarson, hjá OB, né Elías Rafn Ólafsson, hjá Midtjylland, voru í leikmannahópi síns liðs í dag. Elías hefur verið frá um nokkurt skeið vegna handarbrots en minni fregnir er að finna af Aroni Elís, sem var með leikmannahópi OB sem ferðaðist í leikinn í gær.

Leikur liðanna var nokkuð jafn en Midtjylland þó ívið sterkari. Midtjylland lenti í 2. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar í vetur, þremur stigum á eftir meisturum FC Kaupmannahafnar, en OB lenti í 8. sæti, níu stigum frá falli en 27 stigum á eftir Midtjylland.

Hvorugu liðinu tókst að brjóta ísinn, hvorki í venjulegum leiktíma né í framlengingu, og þurfti því vítaspyrnukeppni til að útkljá leikinn.

Þar reyndist hinn 37 ára gamli David Ousted, sem stóð milli stanga Midtjylland í fjarveru Elíasar, vera hetja Midtjylland er hann varði tvær vítaspyrnur af þeim fimm sem hann fékk á sig. Brasilíumaðurinn Evander skoraði sigurmarkið fyrir Midtjylland í 4-3 sigri þeirra í vítakeppninni.

Elías Rafn vinnur því sinn fyrsta titil á ferlinum. Þjálfari hans Bo Henriksen, sem lék með Val, Fram og ÍBV hér á landi sumrin 2005 og 2006, hlýtur silfur í deild og gull í bikar á sinni fyrstu leiktíð með félagið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.