Innlent

Fólk þurfi ekki að örvænta þó álagið sé mikið: „Við sinnum öllum“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir að verið sé að leita lausna til að bregðast við stöðunni.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir að verið sé að leita lausna til að bregðast við stöðunni. Vísir/Vilhelm

Heilbrigðisráðherra segir það alvarlegt ef álag á bráðamóttöku bitnar á sjúklingum en ítrekar að öllum sé sinnt. Verið sé að skoða fjölbreyttar lausnir til að bregðast við stöðunni í heilbrigðiskerfinu en yfirvöld munu ekki láta úrbætur stranda á skorti á fjármunum

Landspítalinn greindi frá því í gær að mikið álag væri á bráðamóttökunni í Fossvogi um þessar mundir og því mætti búast við langri bið eftir þjónustu vegna vægari slysa og veikinda. Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttökunni, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að það væri áhyggjuefni ef sjúklingar þyrftu að bíða í lengri tíma.

„Við sinnum öllum“

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra tekur undir þessar áhyggjur en hann segir mikið álag á öllu kerfinu. Þá fylgi árstímanum aukið álag.

„Þetta er svona birtingamyndin þegar að sumarið kemur og allt fer á fleygiferð, þá eykst álagið á bráðamóttökuna. Þannig það er ýmislegt sem við þurfum að skoða í þessu,“ segir Willum um stöðuna.

Verið er að skoða fjölbreyttar lausnir, til að mynda að auka flæði þegar fólk er búið að fá meðferð en þarf á endurhæfingu að halda, tryggja að laus hjúkrunarrými séu til staðar og mæta aukinni þörf á endurhæfingarrýmum. Þá þurfi að bæta verkferla og efla stöðu heilbrigðiskerfisins úti á landi.

„Við eigum nú frábært starfsfólk og sérfræðinga sem reyna að vinna á þessu og greiða úr þessu, en við verðum líka á móti að styðja við fólkið og sjúklinga með því að leita lausna,“ segir Willum.

Úrbætur stranda ekki á fjármunum

Ítrekað er rætt um fjármögnunarvanda heilbrigðiskerfisins þegar málefni spítalans koma til tals en Willum segir að fjármagn ætti ekki að vera til fyrirstöðu að úrbætur séu gerðar.

„Í stóru myndinni getum við alltaf notað meiri peninga, það er bara þannig með alla þjónustu, en við látum ekki úrbætur á þessu sviði stranda á fjármunum, það er alveg klárt,“ segir Willum.

Fyrst og fremst sé um að ræða mönnunarvanda en mikið álag hefur verið á heilbrigðisstarfsmönnum, ekki síst eftir faraldurinn. Willum segir skiljanlegt að greint sé frá álaginu og að vísað sé í önnur úrræði en fólk þurfi ekki að örvænta.

„Það er bara það sem skiptir öllu máli þegar við erum að skipuleggja heilbrigðisþjónustu að við hittum á réttan stað á réttum tíma, en við sinnum öllum. Það hefur Landspítalinn gert alla tíð og gerir áfram,“ segir Willum.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.