Innlent

Hvergerðingar gera ráð fyrir rúmlega hundrað milljónum króna í bætur

Árni Sæberg skrifar
Svona leit Hamarshöllin í Hveragerði út áður en dúkurinn fauk ofan af henni. Fráfarandi meirihluti ákvað að strengja nýjan dúk yfir í stað hins gamla en svo virðist sem Hvergerðingum lítist illa á blikuna.
Svona leit Hamarshöllin í Hveragerði út áður en dúkurinn fauk ofan af henni. Fráfarandi meirihluti ákvað að strengja nýjan dúk yfir í stað hins gamla en svo virðist sem Hvergerðingum lítist illa á blikuna. Vísir/Magnús Hlynur

Fráfarandi bæjarstjóri Hveragerðis segir framtíð Hamarshallarinnar, sem varð mikið bitbein í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum, alfarið vera í höndum nýrrar bæjarstjórnar. Þá segir hann að gert sé ráð fyrir því að tjónabætur vegna hallarinnar muni nema 108 milljónum króna.

Líkt og frægt er orðið fauk dúkurinn af Hamarshöllinni í Hveragerði í miklu óveðri í febrúar síðastliðnum. Þáverandi bæjarstjórn ákvað að panta nýjan dúk á höllina í stað þess að byggja nýja. Sú ákvörðun fór illa í margan Hvergerðinginn og mætti segja að framtíð hallarinnar hafi verið helsta deilumálið í sveitarstjórnarkosningunum á dögunum.

Aldís Hafsteinsdóttir, fráfarandi bæjarstjóri segist hafa átt í viðræðum við fyrirtækið sem framleiðir dúkinn og segir að fyrirtækið hafi gefið vilyrði fyrir því að afpanta megi dúkinn án vandkvæða.

„Því er ljóst að nýr meirihluti ætti ekki að vera bundinn af fyrri ákvörðun og getur því tekið ákvörðun fljótlega um að hefja viðræður um afpöntun á dúk Hamarshallarinnar og hafið samstundis könnun á öðrum valkostum varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja í Hveragerði,“ segir Aldís í tilkynningu á vef Hveragerðisbæjar.

Þá segir hún að ákvörðun fráfarandi bæjarstjórnar um að endurreisa Hamarshöllina hafi verið tekin með hagsmuni íþróttalífs í Hveragerðis í huga og þá ekki síst hagsmuni barna og ungmenna enda sé endurreisn Hamarshallarinnar, að mati meirihlutans, skynsamleg og hagstæð leið til að koma upp góðri íþróttaaðstöðu bæði hratt og með hagkvæmum hætti.

Hún segir nýja dúkinn sem hefur verið pantaður vera sterkari en sá sem fauk af höllinni í febrúar.

„Jafnframt er rétt að geta þess að fyrstu tölur hafa borist varðandi tjónabætur og er þar gert ráð fyrir að bætur nemi 108 milljónum króna. Samningar um endanlegar tjónabætur bíða aftur á móti nýrrar bæjarstjórnar,“ segir Aldís.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.