Lífið

Stökkið: „Ég er bara að ferðast um og bý ekki á neinum föstum stað“

Elísabet Hanna skrifar
Sóldís Alda Óskarsdóttir fékk innilokunarkennd við tilhugsunina um að eyða lífinu á skrifstofu.
Sóldís Alda Óskarsdóttir fékk innilokunarkennd við tilhugsunina um að eyða lífinu á skrifstofu. Aðsend.

Sóldís Alda Óskarsdóttir býr hvergi og breyttist sýn hennar á lífið þegar hún áttaði sig á því að hún þyrfti ekki að vera í níu til fimm vinnu að eilífu en henni fannst tilhugsunin um að eyða lífinu á skrifstofu allan daginn afar óspennandi.

Hvar ertu búsett?

Ég bý í rauninni hvergi, ég er bara að ferðast um og bý ekki á neinum föstum stað. Það getur verið erfitt fyrir marga að skilja þetta, og ég fattaði í rauninni ekki sjálf að þetta væri eitthvað sem var hægt að gera fyrr en ég byrjaði að ferðast. 

„Sýnin mín á lífið breyttist mjög mikið þegar ég byrjaði að ferðast, ég kynntist mikið af fólki sem var ekki að vinna á neinum föstum stað.“

Margir voru samt í vinnu en gátu þá unnið bara í gegnum tölvuna og gátu þá verið hvar sem þeir vildu. Svo voru margir sem voru að vinna fyrir sjálfan sig, kannski að reka einhverja netverslun, með heimasíðu, ljósmyndarar og bara allskonar. Ég hafði aldrei fattað hvað það væru margir aðrir möguleikar til að fá tekjur en að vera í fastri vinnu. 

„Fyrst þegar ég var að hitta allt þetta fólk sem var bara að ferðast þá hélt ég að þau hlytu hreinlega öll að hafa unnið í lottóinu.“

Þannig að þá byrjaði ég að átta mig á að ég þyrfti ekki að vera í einhverri 9-17 vinnu að eilífu og þá í rauninni varð markmiðið mitt að hætta í vinnunni og fara að ferðast. Ekki því vinnan mín hafi verið eitthvað slæm, alls ekki, heldur fannst mér bara rosalega óspennandi tilhugsun að eyða lífinu mínu í að vera á einhverri skrifstofu allan daginn. Gat bara ómögulega hugsað mér það. 

„Ég fékk einhvern veginn rosalega mikla innilokunarkennd þegar ég hugsaði um að eyða 40 tímum á viku á skrifstofu það sem eftir væri ævinnar.“

Með hverjum býrðu úti?

Það er mjög misjafnt eftir því hvar ég er stödd, á meðan ég var í Valencia bjó ég með annarri stelpu frá Spáni. Ég hef svo verið á flakki síðan þá. Hef verið aðeins á Íslandi, á Ítalíu, Costa Rica, tæpa þrjá mánuði í Króatíu og svo tæpa fjóra mánuði í Mexíkó og þá verið að gista bara á hótelum, hostelum eða leigt annað hvort herbergi eða íbúð í gegnum Airbnb.

Hvenær fluttirðu út?

Ég hætti í vinnunni minni í september 2020 og fór út þá. Ég flutti þá til Valencia og var þar eitthvað fram á næsta ár, og hef svo verið bara á flakki svona síðasta árið.

Langaði þig alltaf til þess að flytja út?

Já, um leið og ég byrjaði að ferðast áttaði ég mig á því að Ísland væri líklega ekki einu sinni á topp 30 yfir lönd sem ég myndi vilja búa í. Ég var aldrei með neinn sérstakan stað í huga og er ekki enn. Ég sæki samt mjög mikið í spænskumælandi lönd þar sem ég tala spænsku og finnst mjög gaman að tala hana. 

„Ég er með rosalega mikla ævintýraþrá og finnst í rauninni alltaf mjög erfitt að ákveða hvert ég ætla að fara því mig langar bókstaflega að sjá allt og gera allt.“

Hvernig hefur heimsfaraldurinn haft áhrif á flutningana?

Já, ég þurfti nánast bara að endurhugsa líf mitt. Ég var búin að ákveða að hætta í vinnunni minni löngu áður en covid byrjaði, og planið var alltaf að fara til Bali og vera þar, a.m.k. í nokkra mánuði, færa mig svo eitthvað annað í Asíu. Svo langaði mig að vera í Sydney í einhverja mánuði, hefur dreymt um að búa þar síðan ég fór þangað fyrst þegar ég var í skiptinámi í Ástralíu. 

„Ég mátti hins vegar gjöra svo vel að gleyma þessari hugmynd í bili útaf öllum ferðatakmörkunum.“

Eini raunhæfi möguleikinn minn þarna um haustið 2020 virtist vera að fara eitthvað til Evrópu, mig langaði að vera þar sem var heitt og ákvað að fara til Spánar. Ég vildi prófa að vera einhvers staðar þar sem ég hafði ekki verið áður til að gera þetta a.m.k. aðeins meira spennandi. Ég hafði heyrt marga tala vel um Valencia og ákvað að fara þangað. 

Ég byrjaði á að leigja herbergi í rúma tvo mánuði og sá svo fyrir mér að geta kannski farið til Asíu eftir það, en það var heldur betur ekki þannig. Ég endaði á að vera miklu lengur í Valencia en ég ætlaði þar sem það var ennþá frekar flókið að ferðast. 

„Það kom svo hálfgert lockdown í Valencia í byrjun 2021 og maður mátti nánast ekki gera nokkurn skapaðan hlut.“

Það var einstaklega leiðinlegt og ég var mikið til í að sjá eitthvað annað en bara íbúðina mína, þannig að ég bókaði miða til Costa Rica og var þar í mánuð. Það var svo allt orðið þokkalega eðlilegt þegar ég kom til baka. Hef svo bara valið mér að fara til landa sem eru ekki með takmarkanir þannig að þetta hefur ekki haft mikil áhrif á mig síðan þá.

Hvernig byrjaðir þú að undirbúa ferlið að flytja?

Ég var búin að vera að ferðast mikið áður en ég hætti í vinnunni minni, yfirleitt í tvo til þrjá mánuði í einu, þannig að þetta var kannski ekki jafn mikið stökk fyrir mig eins og fyrir marga aðra. Ég ferðaðist frekar mikið á meðan ég var í háskóla og fór t.d. þrisvar í skiptinám á þessum þremur árum sem ég var í viðskiptafræði. Þannig að ég var vön því að ferðast og vera í útlöndum í lengri tíma. 

Fyrir mig snerist þetta þess vegna aðallega um að safna nógu miklum pening til að geta hætt í vinnunni, sem tók nokkur ár. Þegar ég fór svo út þá bókaði ég herbergi í íbúð í rúma tvo mánuði í Valencia, og ætlaði svo bara að sjá til eftir það hvort ég vildi vera þar lengur eða færa mig eitthvað annað. 

Þetta hljómar líklega eins og rosa lítill undirbúningur fyrir marga, en ég er vön því þegar ég er að ferðast að bóka bara fyrstu næturnar fyrirfram og bóka svo bara gistingu jafnóðum, þannig að fyrir mig var þetta óvenju mikill undirbúningur.

Hvað þarf að hafa í huga ef að maður ætlar að flytja til útlanda?

Mikilvægt að vera búin að kynna sér aðeins hvernig hlutirnir virka úti. Oft er þetta allt öðruvísi en maður er vanur á Íslandi og allskonar pappírsvinna tengt því að skrá sig inn í landið og að stofna bankareikning getur tekið miklu lengri tíma en maður hefði búist við. 

„Hlutir sem maður heldur að séu rosa einfaldir og jafnvel bara afgreiddir á staðnum geta tekið margar vikur, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum.“

Svo finnst mér mjög mikilvægt að koma með opnum hug og að vera opin fyrir því að kynnast heimamönnum og vera tilbúin að læra a.m.k. eitthvað í tungumálinu, annars kemst maður ekki almennilega inn í samfélagið.

Hvernig komstu í kynni við verkefnin sem þú ert í?

Ég hef ekki verið í vinnu síðan ég hætti í vinnunni minni hérna á Íslandi. Ég safnaði mjög miklum pening áður en ég hætti. Bjó hjá foreldrum mínum, lifði mjög ódýrt, keypti nánast bara föt í Extraloppunni og eyddi bara eins litlu og ég gat á meðan ég var á Íslandi. 

„Ég fjárfesti í allskonar sjóðum, skuldabréfum og hlutabréfum sem hafa flest verið að skila góðri ávöxtun.“

Hef lifað á því og svo líka verið að kaupa og selja hlutabréf meira „short term” sem skilaði þokkalegri ávöxtun í fyrra sérstaklega. Ég er með BS í viðskiptafræði þannig að hef ágætis þekkingu á verðbréfum þaðan. Hef líka verið að taka að mér verkefni tengt samfélagsmiðlum og efnissköpun sem hefur aðallega komið í gegnum Instagram.

Hvers saknarðu mest við Ísland?

Það er alltaf erfiðast að vera í burtu frá öllum, og það er svona það sem ég sakna alltaf mest. Á veturna er voða fátt annað sem ég sakna, langar reyndar stundum á skíði. 

„Svo oft bara svona litlir hlutir eins og að geta drukkið vatnið úr krananum og langar mjög oft í lakkrís.“

Hvers saknarðu minnst við Ísland?

Ég sakna alls ekki veðursins og myrkursins á veturna. Ég gat bara ómögulega staðið í því að þurfa að byrja daginn á að skafa, alveg að frjósa og hálfsofandi. 

„Fannst alltaf mjög erfitt að vakna í myrkrinu til að fara í vinnuna á veturna.“

Hvernig er veðrið?

Mér finnst best að vera þar sem er þokkalega heitt, þannig að er yfirleitt á stöðum þar sem eru 20-30 gráður.

Hvaða ferðamáta notast þú við?

Mér finnst þægilegast að hjóla, en labba líka mikið, miklu meira en ég hef nokkurn tímann gert á Íslandi. Eitt af því sem mér fannst best við að vera t.d. í Valencia var hvað var auðvelt að komast á milli staða. Það eru hjólastígar út um allt og veðrið var gott nánast alla daga þannig að það var mjög þægilegt að hjóla. Svo nota ég yfirleitt lest eða rútur fyrir lengri ferðir.

Kemurðu oft til Íslands?

Ég hef verið að koma svona tvisvar á ári, þá í svona mánuð í hvert skipti. En sé alveg fyrir mér að koma oftar og þá í styttri tíma í einu núna þegar það er orðið auðveldara að ferðast á milli landa.

Upplifir þú það sem kostnaðarsamara eða ódýrara að búa þarna?

Alls staðar þar sem ég hef verið hefur verið miklu ódýrara að búa en á Íslandi. Í Valencia var ég t.d. að borga undir 60 þúsund í leigu á mánuði, sem hljómar kannski eins og ég hafi búið í einhverri holu, en þar var ekki þannig. 

„Ég var að leigja herbergi í mjög fínni nýuppgerðri íbúð, bjó með einni annarri stelpu.“

Ég var svo að eyða kannski 40 þúsund í allt annað, þannig að ég var ekki að eyða nema um 100 þúsund á mánuði. Sem dæmi þá keypti ég árskort í svona hjólaleigu, gat þá tekið hjól og skilað því á hvaða stöð sem er og fyrir þetta árskort borgaði ég heilar 3000 kr.

Svo fer þetta samt allt eftir því hvar maður er. Í Asíu og í mörgum löndum í Mið- og Suður Ameríku er t.d. hægt að finna mjög fína gistingu vel undir því sem ég var að borga t.d. í Valencia. Ég reyni alltaf að ferðast frekar á „off season”, bæði því það er ódýrara en líka því þá er ekki eins mikið af fólki. 

„Hef ekki enn verið í landi þar sem ég hef verið að eyða meira en á Íslandi.“

Hefurðu verið að fá mikið af heimsóknum út?

Hef fengið nokkrar, en það fer örugglega að aukast. Það var frekar flókið út af öllum ferðatakmörkunum sem voru í gangi og voru alltaf að breytast. Svo virðist fólk oft mikla fyrir sér að ferðast til staða þar sem þarf að taka mörg flug. 

„Það hefur frekar verið ég sem hef verið að fara að heimsækja fólk.“

Er sterkt Íslendingasamfélag þar sem þú ert?

Nei, hef ekki verið á stöðum þar sem er neitt Íslendingasamfélag, enda er það er alls ekki eitthvað sem ég sækist eftir. Eitt af því sem mér finnst skemmtilegast og áhugaverðast við að ferðast er að kynnast fólki frá mismunandi löndum með ólíkan bakgrunn. Hef t.d. engan áhuga á að vera á Tenerife eða í Köben.

Áttu þér uppáhalds stað?

Það væri líklega Santa Teresa, sem er lítill brimbrettabær í Costa Rica.

Hvaða matsölustöðum myndir þú mæla með?

Þar væri það Eat Street, Taco Corner og The Bakery

Hvað er eitthvað sem allir verða að gera á þessum stað?

Horfa á sólsetrið og prófa að fara á brimbretti!

Hvernig er týpískur dagur hjá þér úti?

Yfirleitt eru engir tveir dagar eins og enginn týpískur dagur til, fer allt eftir því hvar ég er. Það er samt mjög heilagt að byrja daginn á að fá mér gott kaffi. Tek yfirleitt tölvuna með mér og er þá oft að skipuleggja næstu daga eða vikur. Bóka gistingu, vinna í blogginu mínu, fylgjast með hlutabréfamarkaðnum eða vinna í einhverjum öðrum verkefnum. 

Eftir morgunmat er í rauninni bara rosalega misjafnt hvað ég geri. Suma daga er ég bara að gera voða venjulega hluti eins og að fara í ræktina, hitta vini mína eða að sinna einhverjum verkefnum í tölvunni. Svo eru alveg dagar þar sem ég er mest fyrir framan tölvuna að skoða hvert ég ætla að fara næst, hvar ég ætla að gista, hvernig ég ætla að fara þangað og allt þetta. 

Aðra daga er ég að vinna í blogginu mínu, taka myndir fyrir Instagram eða gera eitthvað samfélagsmiðlatengt. Svo eru auðvitað dagar þar sem ég er bara að liggja á ströndinni, fara í bátsferðir eða einhverjar dagsferðir, snorkla eða eitthvað svoleiðis. Held að margir haldi að ég sé bara að tjilla á ströndinni og snorkla alla daga því það er yfirleitt það sem ratar á Instagram, en það er ekki þannig. Oft er ég bara að gera voða venjulega hluti.

Hvað er það besta við ferðast svona?

Það skemmtilegasta við að vera á endalausu flakki finnst mér vera að sjá nýja staði og upplifa nýja hluti. 

„Ég elska að hafa frelsi til að geta verið þar sem ég vill og finnst fátt meira spennandi en að vakna á nýjum stað og skoða mig um.“

Hvað er það versta við að ferðast svona?

Það er rosalegt frelsi að geta verið hvar sem maður vill, en það eru líka alls konar gallar sem fylgja því að vera á stanslausu flakki. Til dæmis að þurfa alltaf að drösla öllu dótinu sínu með sér hvert sem maður fer, það getur verið ótrúlega þreytandi. 

Svo fer mikill tími í að skoða og ákveða hvert maður ætlar að fara næst, hvar maður ætlar að gista, hvernig maður kemst þangað og allt þetta. Það er einhvern veginn alltaf eitthvað sem þarf að bóka eða græja. 

„Svo verður alveg vel þreytt að búa í ferðatösku, maður finnur oft ekki nokkurn skapaðan hlut.“

Svona litlir hlutir eins og að þetta er ekki alltaf spurning um í hvaða fötum mann langar að vera, heldur meira bara hvað maður finnur í töskunni. Það skemmtilega við það er kannski að ég er oft að uppgötva einhver „ný” föt sem eru þá búin að vera á botninum í nokkrar vikur.

Sérðu fyrir þér að flytja aftur til Íslands?

Nei, ég sé ekki fyrir mér að flytja aftur til Íslands, en gæti alveg hugsað mér að vera þar í einhverja mánuði yfir sumarið til dæmis.


Tengdar fréttir

Stökkið: „Ég var í rauninni bara að byrja upp á nýtt“

Tinna Rún Svansdóttir býr í Basingstoke í Suður-Englandi ásamt kærastanum sínum Spencer og syni þeirra Mason Birni. Hún flutti út í október 2015 meðal annars til þess að vera nær ástinni og upplifði flutningana eins og að byrja upp á nýtt.

Stökkið: Býr hvergi og hefur ferðast til níutíu landa

Björn Pálsson hefur ferðast um heiminn og búið á flakki víðsvegar síðstu tólf árin. Hann er ekki með fasta búsetu í neinu landi, býr og ferðast mest með sjálfum sér og lifir hinum svokallaða Nomad lífsstíl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×