Erlent

Musk sagður hafa berað sig við flugfreyju

Kjartan Kjartansson skrifar
Elon Musk stendur í ströngu þessa dagana.
Elon Musk stendur í ströngu þessa dagana. Vísir/EPA

Geimferðafyrirtækið SpaceX greiddi flugfreyju kvartmilljón dollara eftir að hún sakaði Elon Musk, eiganda fyrirtækisins, um að hafa berað sig fyrir framan hana og falast eftir kynlífi með henni. Atvikið er sagt hafa átt sér stað árið 2016.

Business Insider segir að fyrirtækið hafi gert sátt við konuna og greitt henni 250.000 dollara árið 2018. Hún hafi unnið í áhöfn þotu sem SpaceX, meðal annars sem nuddari. Miðillinn byggir þetta á gögnum og viðtölum.

Konan hélt því fram að Musk hefði berað lim sinn í fullri reisn, nuddað fótlegg hennar án samþykkis hennar og boðist til að kaupa handa henni hest í skiptum fyrir erótískt nudd.

Varaforseti SpaceX vildi ekki tjá sig um ásakanirnar. Musk bað sjálfur Business Insider um lengri tíma til að svara spurningum um málið en sagði mun meira búa að baki.

„Ef ég væri hneigður til að áreita kynferðislega þá væri ólíklegt að þetta væri í fyrsta skipti á öllum þrjátíu ára ferli mínum sem það kæmi í ljós,“ sagði Musk og kallaði fréttina „pólitíska árásargrein“.

Vangaveltur voru uppi í gær um hvort að Musk undirbyggi jarðveginn fyrir óþægilegar fréttir af sér. Þá tísti hann um að „pólitískum árásum“ á hann ætti eftir að fjölga á næstunni, meðal annars í samhengi við að hann sagðist ætla að kjósa frekar Repúblikanaflokkinn í Bandaríkjunum en Demókrataflokkinn. Spáði hann „lúabrögðum“ af hálfu demókrata gegn sér.

Svo virðist sem að Musk hafi tíst um komandi árásir skömmu eftir að blaðamenn Business Insider leituðu eftir viðbrögðum hans í gær fyrir fréttina sem birtist í dag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.