Sport

Val­sarar fóru meistara­hringinn á þremur árum

Sindri Sverrisson skrifar
Valsarar hafa unnið Íslandsmeistaratitla í handbolta, fótbolta og körfubolta, bæði hjá körlum og konum, á árunum 2019-2022. Alls eru Íslandsmeistaratitlarnir átta á þessum árum en gætu mögulega orðið tíu áður en maí er úti og tólf í haust þegar fótboltaleiktíðinni lýkur.
Valsarar hafa unnið Íslandsmeistaratitla í handbolta, fótbolta og körfubolta, bæði hjá körlum og konum, á árunum 2019-2022. Alls eru Íslandsmeistaratitlarnir átta á þessum árum en gætu mögulega orðið tíu áður en maí er úti og tólf í haust þegar fótboltaleiktíðinni lýkur. vísir/daníel/hulda margrét/bára/egill

Valsarar hafa landað Íslandsmeistaratitlum í öllum þremur stóru boltagreinunum á síðustu þremur árum, bæði í karla- og kvennaflokki.

Sigur Vals gegn Tindastóli í gærkvöld, og þar með fyrsti Íslandsmeistaratitill karlaliðs Vals í körfubolta í 39 ár, þýðir að félagið getur mögulega endað með tólf Íslandsmeistaratitla á árunum 2019-2022 í meistaraflokki í körfubolta, handbolta og fótbolta. 

Félagið hefur þegar unnið átta Íslandsmeistaratitla á aðeins þessum þremur síðustu árum og biðin eftir Íslandsmeistaratitli í körfubolta karla var orðin sú langlengsta hjá liðunum sex í Val.

Kvennaliðið í körfubolta vann sína fyrstu tvo Íslandsmeistaratitla 2019 og 2021 og hefur einnig unnið bikarmeistaratitil og þrjá deildarmeistaratitla á þessum tíma, en um er að ræða fyrstu stóru titlana í sögu kvennaliðsins.

Karlalið Vals í körfubolta hefur nú orðið Íslandsmeistari alls þrisvar og bikarmeistari jafnoft en liðið þurfti að bíða í 39 ár eftir að hafa unnið tvöfalt árið 1983.

Handboltaliðin berjast um titla

Bæði kvenna- og karlalið Vals eru komin í úrslitaeinvígin í handboltanum og geta því bætt Íslandsmeistaratitlum í sitt stóra safn. Karlalið Vals byrjar einvígið gegn ÍBV í kvöld og kvennaliðið mætir Fram í fyrsta leik á morgun.

Karlalið Vals í handbolta er ríkjandi Íslandsmeistari og hefur unnið titilinn langoftast eða 23 sinnum, og varð í vetur bikarmeistari í 11. sinn sem er einnig met á Íslandi.

Kvennalið Vals í handbolta varð síðast Íslandsmeistari 2019 og getur landað titlinum í 18. sinn takist liðinu að vinna Framkonur. Valskonur urðu einnig bikarmeistarar 2019 og hafa unnið þann titil sjö sinnum.

Ríkjandi Íslandsmeistari í þremur greinum

Í sumar þykja svo bæði karla- og kvennalið Vals líkleg til afreka í fótboltanum. Kvennaliðið er ríkjandi Íslandsmeistari og á næstflesta Íslandsmeistaratitla á eftir Breiðabliki, eða 12, auk 13 bikarmeistaratitla þar sem Valur deilir metinu með Blikum.

Valur er því ríkjandi meistari í körfubolta og handbolta karla, og fótbolta kvenna.

Karlaliðið í fótbolta varð Íslandsmeistari þrisvar á árunum 2017-2020 og hefur alls unnið titilinn 23 sinnum, næst á eftir KR sem á 27 Íslandsmeistaratitla. Liðið á 11 bikarmeistaratitla eftir að hafa síðast unnið bikarkeppnina 2016.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.