Umfjöllun: Valur - Tindastóll 73-60 | Valsmenn Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í 39 ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristófer Acox og Benedikt Blöndal lyfta Íslandsmeistarabikarnum.
Kristófer Acox og Benedikt Blöndal lyfta Íslandsmeistarabikarnum. Vísir/Bára

Valur varð í kvöld Íslandsmeistari í körfubolta karla í þriðja sinn og í fyrsta sinn í 39 ár eftir sigur á Tindastóli, 73-60, í oddaleik í troðfullri Origo-höll.

Leikurinn var afar jafn eins og flestir hinna leikjanna í úrslitaeinvíginu en Valsmenn sigu fram úr í 4. leikhluta sem þeir unnu, 23-11.

Valsvörnin var gríðarlega öflug, sérstaklega í seinni hálfleik, og Stólarnir komust lítt áleiðis. Valsmenn voru mun öflugri í frákastabaráttunni, unnu hana 53-42 og skoruðu nítján stig eftir sóknarfráköst.

Hjálmar Stefánsson var besti maður vallarins og skoraði 24 stig fyrir Val. Kristófer Acox skoraði þrettán stig og tók nítján fráköst. Taiwo Badmus skoraði sautján stig fyrir Tindastól.

Eins og á síðasta tímabili voru Valsmenn lengi í gang í vetur en jóx ásmegin eftir því sem á leið. Jacob Calloway var svo síðasta púslið sem þurfti og eftir að hann komst í gang fór Valur á mikið flug. 

Valsmenn unnu fyrstu tvær rimmur sínar í úrslitakeppninni án þess að tapa leik en lentu í basli með Stólana í úrslitaeinvíginu. Þeir sýndu hins vegar mikinn styrk í heimaleikjunum, sem voru allir jafnir, og voru svo betri aðilinn þegar mest á reyndi í kvöld.

Kári Jónsson var valinn besti leikmaður úrslitaeinvígisins.vísir/bára

Stólarnir spiluðu vel í úrslitakeppninni en sóknarleikurinn brást algjörlega á ögurstundu. Þeir hittu aðeins úr 24 af 71 skotum sínum í leiknum og voru bjargarlausir á sóknarhelmingnum í 4. leikhluta. Þeirra beittustu sóknarvopn bitu ekkert og til marks það hitti Sigtryggur Arnar Björnsson aðeins úr fjórum af 21 skoti sínu og Javon Bess úr fimm af fjórtán.

Stemmngin í Origo-höllinni hefur sennilega aldrei verið meiri en í kvöld og augljós að mikilvægi leiksins hafði áhrif á leikmenn liðanna sem sýndu ekki sínar bestu hliðar, allavega í sókninni. Það vantaði hins vegar ekkert upp á baráttu og varnarleik.

Stólarnir byrjuðu leikinn betur og voru með frumkvæðið á meðan stífir Valsmenn voru í vandræðum. Tindastóll komst í 3-13 eftir þriggja stiga körfu frá Bess og þá var Finni Frey Stefánssyni, þjálfara Vals, nóg boðið og tók leikhlé.

Eftir það skoraði Hjálmar sjö stig í röð og Valur minnkaði muninn í 14-16. En tveir þristar frá Pétri Rúnari Birgissyni og Sigtryggi Arnari þýddu að Tindastóll leiddi með átta stigum eftir 1. leikhluta, 14-22.

Taiwo Badmus var stigahæstur gestanna frá Sauðárkróki.vísir/bára

Sóknarleikur Vals var afleitur í 1. leikhluta. Skotnýtingin var aðeins 26 prósent og Valsmenn voru með fleiri tapaða bolta (6) en körfur (5). Ef ekki hefði verið fyrir góða innkomu Hjálmars, sem skoraði níu stig, hefði staðan verið enn verri.

Badmus skoraði fyrstu körfu 2. leikhluta og kom Tindastóli tíu stigum yfir, 14-24. Stólarnir voru áfram sterkari aðilinn og Sigurður Gunnar Þorsteinsson kom þeim níu stigum yfir, 21-30, þegar 2. Leikhluti var hálfnaður.

Þá kom frábær rispa hjá Val. Heimamenn skoruðu tólf stig í röð og náði forystunni, 33-30. Valsvörnin var afar þétt á þessum kafla og heimamenn fengu ódýr stig eftir hraðaupphlaup. Alls skorað Valur sextán hraðaupphlaupsstig í fyrri hálfleik en Tindastóll aðeins sex. Þá var Valur með yfirhöndina í frákastabaráttunni.

Stólarnir héldu þó sjó og þökk sé þriggja stiga körfu Sigtryggs Arnars var staðan í hálfleik jöfn, 36-36.

Hjálmar Stefánsson átti eflaust einn sinn besta leik á ferlinum í kvöld.vísir/bára

Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn betur og Pavel setti niður tvö þriggja stiga skot. Heimamenn voru með frumkvæðið en munurinn var aldrei mikill. 

Bæði lið voru í miklum sóknarvandræðum, reyndu erfiða hluti, skotin rötuðu ekki ofan í og aðeins voru skoruð 27 stig samtals í 3. leikhluta. Staðan að honum loknum var 50-49, Val í vil.

Pétur minnkaði muninn í 53-52 með þriggja stiga körfu í upphafi 4. leikhluta. Það reyndist síðasta karfa Tindastóls í þrjár og hálfa mínútu. Valsvörnin hélt vatni og vindum og heimamenn gerðu nóg í sókninni til að síga fram úr.

Valur, Íslandsmeistari karla í körfubolta 2022.vísir/bára

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, tók leikhlé og reyndi að finna lausnir en ekkert gekk. Og eftir að Valsmenn voru komnir með yfirhöndina voru þeir ekki líklegir að láta forystuna af hendi.

Á endanum munaði þrettán stigum á liðunum, 73-60, og langri bið Vals eftir Íslandsmeistaratitli lokið.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.