Fótbolti

Heimildarmynd um Söru Björk komin út: Fótboltakonur þurfa ekki að velja á milli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir með son sinn Ragnar Frank Árnason sem hún eignaðist 16. nóvember síðastliðinn.
Sara Björk Gunnarsdóttir með son sinn Ragnar Frank Árnason sem hún eignaðist 16. nóvember síðastliðinn. Instagram/@sarabjork90

Heimildarmynd um meðgöngu landsliðskonunnar Söru Bjarkar Gunnarsdóttur og endurkomu hennar inn á fótboltavöllinn er nú komin í loftið.

Sara Björk kynnti myndina á samfélagsmiðlum sínum en hún heitir „Do Both“ eða „Gerum bæði“ upp á íslensku.

„Ég er Sara Björk Gunnarsdóttir. Ég er að fara fæða barn í nóvember og í júní ætla ég að spila fyrir þjóð mína á Evrópumótinu,“ segir Sara í upphafi myndarinnar.

Sara Björk mun leita sér að nýju félagi í sumar en hún er að klára samning sinn hjá franska stórliðinu Lyon þar sem hún vann Meistaradeildina árið 2020.

Í myndinni fáum við að kynnast Söru betur, hugarfari hennar og keppnisskapi. Það er rætt við vini hennar, liðsfélaga og fjölskyldu.

„Ég hef enga þekkingu á því hvað séu bestu æfingarnar fyrir fótboltakonu sem er ófrísk,“ segir Sara en í heimildarmyndinni má sjá hana æfa á meðan meðgöngunni stóð.

Það er sem betur fer orðið miklu algengara að sjá fótboltakonur eignast barn og snúa aftur inn á völlinn. Fjölmargar í íslenska landsliðinu hafa gert þetta og Sara Björk bætist nú í hópinn.  Sara leitaði til leikmanna í landsliðinu sem höfðu eignast barn og komið til baka. Þar fékk hún góð ráð.

Sara spilaði aftur með íslenska landsliðinu í apríl í leikjum á móti Hvíta-Rússlandi og Tékkum í undankeppni HM.

Í myndinni má sjá Söru Björk á ákveðnum stigum meðgöngunnar sem reyndi mikið á hana, bæði líkamlega og andlega. Við sjáum hana líka með Ragnar Frank. 

„Við viljum gera bæði. Fótboltakonur þurfa ekki að velja á milli,“ segir Sara. Hún fer síðan yfir hvernig hún vann sig til baka hjá Lyon.

„Ég verð mjög stolt þegar ég klæði mig aftur í bláu landsliðstreyjuna. Ég vil sýna fólki að ég get gert bæði,“ segir Sara.

Það má sjá alla heimildamyndina hér fyrir neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.