Innlent

„Við fórum yfir stöðuna og á­kváðum að halda saman“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar í borginni segir meirihlutaflokkana Viðreisn, Samfylkingu og Pírata, ætla að halda saman.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar í borginni segir meirihlutaflokkana Viðreisn, Samfylkingu og Pírata, ætla að halda saman. Vísir/Vilhelm

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar í borgarstjórn segir að oddvitar meirihlutaflokkanna hafi á fundi í gær ákveðið að „halda saman“. Miklar vangaveltur eru uppi um hvaða flokkar muni mynda meirihluta í borgarstjórn en meirihlutinn féll í sveitarstjórnarkosningum á laugardag. 

Oddvitar núverandi meirihluta; Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna; funduðu í gær til að fara yfir stöðu mála. Meirihlutinn féll á laugardag og var því ljóst að mynda þarf nýjan meirihluta, sama hvernig. Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna, hefur þá útilokað að Vinstri græn taki þátt í meirihlutasamstarfi í borginni á þessu kjörtímabili og tilkynnti hinum oddvitunum það einmitt á fundi þeirra í gær. 

„Við hittumst nú í gær oddvitar meirihlutans af því að við erum náttúrulega öll að mæta í vinnu í dag, það er kannski enginn sem fattar það. Þannig að við hittumst í gær til þess að tala saman, framundan er áframhaldandi vinna, kjörtímabilinu lýkur ekki fyrr en í lok mánaðarins þannig að það er borgarráð framundan og borgarstjórnarfundur fram undan,“ segir Þórdís Lóa í samtali við fréttastofu. 

Oddvitarnir hafi hist í gær og rætt að samstarf þeirra hafi gengið vel á liðnu kjörtímabili. 

„Og við lásum aðeins í spilin eftir nóttina, með stóru línurnar í skilaboðunum og ræddum það að við ætluðum að skoða það að fylgjast að,“ segir Þórdís. 

Borgarstjórnarvinna taki við næstu tvær vikur

Til þess að meirihlutaflokkarnir, utan Vinstri grænna, geti fylgst áfram að þurfa þeir að taka með sér aðra flokka í meirihlutasamstarfið. Til greina kemur fyrir þá að taka með sér Framsókn, Sjálfstæðisflokkinn eða Flokk fólksins og Sósíalistaflokkinn. Píratar hafa hins vegar útilokað samstarf með Sjálfstæðisflokki og Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalista, hefur útilokað samstarf við Viðreisn. 

Er það þá Framsókn sem þið tækjuð inn í meirihlutann?

„Við ræddum það ekki öðruvísi en að við byrjuðum bara þetta samtal. Við fengum þær fréttir í gær þannig að við bara fórum yfir stöðuna og ákváðum að halda saman. Það eru ákveðin skilaboð út og svo byrjar samtalið út frá því,“ segir Þórdís Lóa. 

Hún segir að nú taki aðeins við áframhaldandi vinna áður en ný borgarstjórn taki við. 

„Það er bara vinna framundan, eins skringilega og það hljómar. Það eru verkefni eftir sem þarf að klára. Nú er hálfur mánuður þar til ný borgarstjórn tekur við þannig að mitt verkefni sem formaður borgarráðs er að halda borgarráðsfund og halda maskínunni gangandi áfram og verkefni Alexöndru Briem forseta borgarstjórnar er að halda borgarstjórnarfund og ég geri ráð fyrir að borgarstjóri þurfi  að mæta á kantórinn og halda áfram,“ segir Þórdís.

„Það eru alltaf allir að spyrja hvort við séum að tala saman. Við erum náttúrulega í vinnunni, alltaf að tala saman.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar í borginni sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 að oddvitar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar ætli að fylgjast að í viðræðum næstu daga um myndun nýs meirihluta. Hann sagði þá að ákvörðun VG um að taka ekki þátt í meirihlutasamstarfi hafi fækkað valkostum. 


Tengdar fréttir

Líf úti­lokar þátt­töku í meiri­hluta­sam­starfi

Líf Magneudóttir, oddviti og eini borgarfulltrúi Vinstri grænna í Reykjavík, hefur tjáð samstarfsfélögum sínum í fráfarandi meirihluta að Vinstri græn muni ekki sækjast efir því að taka þátt í viðræðum um meirihlutasamstarf.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.