Innlent

Segir engar við­ræður hafnar en úti­lokar ekki sam­starfið

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hildur Björnsdóttir er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Hildur Björnsdóttir er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir engar viðræður hafnar milli flokks síns og Framsóknarflokksins. Hún telji þó raunhæfan möguleika að starfa með Framsókn, Viðreisn og Flokki fólksins

Fyrr í kvöld greindi Ríkisútvarpið frá því að flokkarnir tveir, sem samanlagt náðu tíu fulltrúum, ættu í óformlegum viðræðum um myndun meirihluta ásamt Viðreisn og Flokki fólksins, sem fengu einn fulltrúa hvor.

„Það eru engar formlegar viðræður hafnar,“ sagði Hildur í stuttu samtali við fréttastofu. Hún sagði þó eðlilegt að oddvitar þeirra flokka sem náðu inn fulltrúum í borgarstjórn ræddust við og heyrðu hljóðið hver í öðrum.

„Það hafa bara verið samtöl við marga oddvita um niðurstöður kosninganna,“ sagði Hildur. Þannig hafi hún ekki aðeins rætt við Einar Þorsteinsson, oddvita Framsóknar, heldur einnig fleiri oddvita. Einar sagði fyrr í kvöld að fréttir RÚV af meintum viðræðum hans og Hildar væru rangar.

Hildur segist ekki kunna skýringar á því hvernig orðrómur um viðræður Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sérstaklega hefði komist á kreik. Hún tók þó undir það með Einari að það kunni að skýrast að hún hafi fengið far með Einari í höfuðstöðvar RÚV í Efstaleiti eftir að þau voru til viðtals í Sprengisandi á Bylgjunni.

Einar sagði í þættinum fyrr í kvöld að þar hafi pólitík sannarlega borið á góma, en vildi ekki meina að það hafi verið nokkuð sem kalla mætti viðræður um myndun meirihluta.

Raunhæfur möguleiki

Aðspurð um þann möguleika, að Sjálfstæðisflokkurinn myndi mynda meirihluta með Framsókn, Flokki fólksins og Viðreisn, segir Hildur vert að skoða það.

„Það er auðvitað einn möguleiki í stöðunni. hann mætti sannarlega skoða og sjá ákveðinn málefnagrundvöll um breytingar og breiðu línurnar,“ segir Hildur.

Slíkur meirihluti yrði skipaður tólf fulltrúum, en það er lágmarksfjöldi fulltrúa sem þarf til myndunar meirihluta þar sem borgarfulltrúar eru 23 talsins. Fulltrúarnir yrðu sex frá Sjálfstæðisflokki, fjórir frá Framsókn, einn frá Viðreisn og einn frá Flokki fólksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×