Innlent

Vonar að konan taki því fagnandi að sjá meira af honum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir kveður embættið.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir kveður embættið. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að bæði aldurinn og staðan í kórónuveirufaraldrinum séu ástæður þess að hann ætli að hætta störfum í haust. Ákvörðunin sé algjörlega tekin á hans forsendum.

Embætti landlæknis hefur auglýst starf sóttvarnalæknis til umsóknar. Ástæðan er sú að Þórólfur, fastagestur á sjónvarpsskjám landsmanna undanfarin tvö ár, hefur ákveðið að stíga af sviðinu.

Þórólfur sagði í viðtali við Véstein Örn Pétursson fréttamann, sem sýnt var beint á Vísi á tólfta tímanum, að Covid-19 faraldurinn væri þrátt fyrir allt ekki búinn. Nú væri góður tími hér á landi til að fara yfir farinn veg, huga að sóttvörnum að nýju og gera síðustu tvö ár upp.

„Þetta er góður tími fyrir mig og sóttvarnirnar að stokka upp,“ sagði Þórólfur.

Hann segir gott að fá nýjan mann í brúna. Margt þurfi að gera upp. Búa til nýja viðbragðsáætlun enda muni koma annar faraldur og þá þurfi að búa að reynslunni. Hann útilokar ekki að koma að þeirri vinnu en það sé þó óráðið.

Fjölskyldan í forgang

Óvíst er hvað taki við en hann ætli þó að setja fókusinn á sjálfan sig og fjölskylduna. Aðspurður segist hann vona að eiginkonan taki því fagnandi að hann sé að hætta og sjái meira af honum.

Þórólfur lítur stoltur um farinn veg, þakklátur fyrir samvinnuna með öllum sem hönd hafi lagt á plóg hjá landlækni og almannavörnum. En því sé fjarri að kominn sé endapunktur í sóttvörnum.

„Þetta er eilífðarverkefni.“

Þá segir hann starf sóttvarnalæknis afar skemmtilegt. Að vinna við það fag sem hann hafi lagt fyrir sig og með frábæru fólki.

„Það eru forréttindi.“


Tengdar fréttir

Þórólfur Guðnason segir upp störfum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sagt upp störfum frá og með 1. september næstkomandi. Hann segir ástæður uppsagnarinnar bæði persónulegar og faglegar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira
×